Landsliðsþjálfarinn Craig Pedersen gerði stutt stopp hér á Íslandi fyrir helgi en Körfuknattleikssamband Íslands framlengdi við Pedersen samning hans nú á haustdögum. Craig sem sagði skilið við danska félagsliðið Svendborg Rabbits fyrr á þessu tímabili hefur gengist í stærra hlutverk innan raða KKÍ og er núna staddur í New York þar sem markmiðið er að stofna til öflugri sambanda við þá skóla sem íslenskir leikmenn spila hjá þetta tímabilið. Karfan.is ræddi við Pedersen síðastliðinn föstudag en þá hafði hann fylgst með leik Njarðvíkur og Snæfells og hélt svo í Þorlákshöfn þar sem hann sá KR vinna sterkan útisigur gegn heimamönnum í Þór.

„Núna í þessari heimsókn til Íslands var bara verið að funda með sambandinu og skipuleggja sumarið sem er framundan. Næsta föstudag er dregið í forkeppnina fyrir EuroBasket 2017 og þá fáum við á hreint hvaða þjóðir verða með okkur í riðli, með okkur í baráttunni um að komast inn í lokakeppnina 2017,“ sagði Craig sem nú hefur aðeins víðtækari skyldur í sínum samningi við KKÍ. 

„Ég gat tekið að mér stærra hlutverk hjá KKÍ þar sem ég hætti hjá Svendborg eftir tæplega 13 ára starf. Þá var það einnig ánægjulegt að geta varið meiri tíma með fjölskyldunni en núna í þessu nýja umhverfi mínu er stefnan að vera í betra sambandi við leikmennina í og við landsliðið. Ferðin til New York er til að stofna til betri sambanda við skólana og þjálfarana innan þeirra, fylgjast með þróun íslensku leikmannanna vestanhafs og almennt bæta samskiptin milli allra sem koma að þessum einstaklingum okkar í skólunum,“ sagði Craig og bætti við að ferðin vestur um haf ætti einnig að vera fjárfesting í framtíðarvitneskju svo hægt sé að þekkja og leiðbeina ungum leikmönnum og gefa þeim hugmynd um hvað þeir séu að fara út í þegar háskólasamningur liggur á borðinu. 

Aðspurður um ævintýrið í Berlín síðasta haust sagði Craig að það hefði ekki verið flókið að fara aftur í „rútínuna“ að Berlínarævintýrinu loknu. 

„Í raun var það ekkert flókið, ég hoppaði beint aftur í starfið hjá Svendborg og var áfram að þjálfa 16-17 ára leikmenn í skólanum þar sem ég starfa. Svo hætti ég hjá Svendborg en er enn mjög virkur í starfi mínu með þessum 16-17 ára strákum. Það var vissulega erfitt að segja skilið við Svendborg en þetta hafði verið að brjótast um í mér í smá tíma. Ég vildi eiga meiri tíma með börnunum mínum á meðan þau eru enn ung og það sem betur fer gekk mjög vel að láta Arnar Guðjónsson taka við liðinu og þar gengur honum vel,“ sagði Craig en Arnar var aðstoðarþjálfari hjá Craig í Svendborg og líka aðstoðarþjálfari hans í íslenska landsliðnu. 

Hvernig verður byggt á síðasta sumri?

„Ég myndi vilja halda sem flestum lykilmönnum frá síðasta sumri, það eru menn sem hafa lagt mikið á sig og verðskulda að gefa sjálfum sér annað tækifæri á því að komast aftur á EuroBasket. Leikmenn eins og Jón Arnór og Hlynur eru bestu leikmenn þjóðarinnar, það er gott að þeir líti á komandi verkefni jákvæðum augum,“ sagði Craig sem hefur verið að brjóta í öreindir síðasta sumar, reynt að skilja það góða frá því sem mátti betur fara og svo framvegis.

„Ég hef rætt mikið við fólk um hvað virkaði, hvað hefði mátt fara betur og þannig höfum við verið að velta hlutunum fyrir okkur og um leið bæta alla hluti í starfinu því það má alltaf gera betur,“ sagði Craig sem verður áfram með þá Finn Frey Stefánsson og Arnar Guðjónsson sér við hlið í hlutverkum aðstoðarþjálfara. 

Næsta föstudag verður dregið í forkeppni EuroBasket 2017 og á Craig sér enga sérstaka óskamótherja:

„En það væri samt gaman að sjá í hvaða styrkleikaflokki við lendum, við verðum bara að bíða og sjá hvað setur í vikunni en það er kannski langsótt að fá annan eins riðil og í Berlín.“

Í huga Craig var riðillinn í Berlín sannkallaður draumariðill. „Það er ekki eins og Spánn sé tilbúinn til að leika við okkur æfingaleiki á hverju sumri svo að fá tækifæri til að leika gegn svoleiðis liði var tækifæri lífsins. Þar af leiðir var þetta dauðariðill fyrir öll önnur lið en Ísland því það vildu allir komast upp úr riðlinum. Okkar væntingar voru að spila vel og það gerðum við. Það lá alltaf fyrir að okkar árangur yrði mældur öðruvísi en annarra liða í riðlinum og ég er nokkuð viss um að leikmenn íslenska liðsins séu því sammála.“

Eftir dráttinn í forkeppni EuroBasket 2017 næsta föstudag þá erum við einhverju nær en hvenær hyggst Craig hefja landsliðssumarið 2016? „Um 20. júlí hefjum við leik með stóran hóp í nokkra daga og svo gerum við hlé yfir verslunarmannahelgina og að henni lokinni og eftir niðurskurð fer allt á fullt. Þá náum við um fjórum vikum af góðum æfingum og nokkrum æfingaleikjum og svo hefst fjörið bara um mánaðarmótin ágúst-september.