Keflavík sigraði Hauka fyrr í kvöld í Schenker höllinni í framlengdum leik með 88 stigum gegn 85. Keflavík er því sem fyrr á toppi deildarinnar með 11 sigra og 2 töp á meðan að Haukar eru í 5. sæti með 7 sigra og 6 töp.

 

 

Fyrir leikinn hafði Keflavík verið á fínni siglingu. Unnið báða leiki sína á þessu ári (gegn Þór í deildinni og Njarðvík í bikarnum) Haukar aftur á móti höfðu tapað báðum sínum leikjum á þessu ári (gegn Snæfell í deildinni og Þór í bikarnum)

 

Bæði lið bætt við leikmannahóp sinn síðustu vikur. Haukar sent erlendan leikmann sinn heim og fengið Brandon Mobley til starfa og Keflavík náð í Daða Lár Jónsson úr Stjörnunni. Sá fyrrnefndi skilaði flottum leik fyrir heimamenn í þessum fyrsta leik sínum (í deildinni / spilaði í bikartapinu gegn Þór), 25 stig og 11 fráköst. Var hinsvegar óheppinn með að fá villur númer 4 og 5 á sig undir lok leiksins, því hann virtist alveg vera í skapi til að klára þennan leik fyrir Hauka um það leyti. Daði Lár var hinsvegar meiddur og því í borgaralegum klæðum á bekknum hjá Keflavík.

 

Frekar fáir voru mættir á áhorfendapallana þegar að leikurinn var settur af stað, en leiða má líkur að því að allmargir þeirra fjölmörgu sem síðan birtust þegar leið á 1. leikhlutann hafi verið að fylgjast með íslenska landsliðinu í handbolta sem hafði sekúndum áður klárað sinn leik.

 

Leikinn opnaði leikmaður Keflavíkur, Reggie Dupree, með löngum þrist. Reggie virtist koma manna mest tilbúinn til leiks, skoraði fyrstu 7 stig sinna manna. Liðin skiptust hinsvegar á að hafa forystuna bróðurpart þessa 1. leikhluta, þó Keflavík hafi sigið 4 stigum frammúr fyrir lok hans, 21-25.

 

Í öðrum leikhlutanum fóru heimamenn betur af stað. Voru ekki lengi að gera þessa litlu forystu Keflavíkur að engu. Komust aftur yfir þegar um 2 mínútur voru liðnar af hlutanum með þrist frá Hjálmari Stefánssyni. Virtust samt eiga í erfiðleikum með að láta opin skot sín detta á móti svæðisvörn Keflavíkur. Voru hinsvegar 4 stigum yfir í hálfleik, 43-39.

 

Atkvæðamestur fyrir heimamenn í fyrri hálfleiknum var Brandon Mobley með 19 stig og 6 fráköst á meðan að fyrir Keflavík var það Earl Brown sem dróg vagninn með 11 stig og 6 fráköst.

 

Snemma í þriðja leikhlutanum fær leikstjórnandi Hauka, Emil Barja, sína 4 villu. Haukar ná þó að mestu að halda sinni forystu, þrátt fyrir mikla atlögu gestanna, en fyrir lokaleikhlutann var munurinn 1 stig 60-59.

 

Í lokaleikhlutanum fóru Haukarnir betur af stað og eru komnir með 7 stiga forystu um miðbygg hans. Virtust í raun vera að fara að sigla þessu heim. Allt þangað til það eru tæpar 3 mínútur eftir, en þá fær þeirra besti leikmaður í leiknum, Brandon Mobley, dæmdar á sig tvær ódýrar villur (sóknarvilla og síðan varnarvilla) og er í framhaldinu útilokaður frá leiknum með 5 villur. Keflavík vinnur niður muninn í kjölfarið og tryggir það að leikurinn fari í framlengingu, 75-75.

 

Haukar hefðu getað tryggt sér sigurinn í venjulegum leiktíma, en í síðustu sókn sinni settu þeir niður lokaskotið. Sem kom þó, eftir að dómarar höfðu ráðfært sig við myndatökumenn, eftir að skotklukkan rann út. Keflavík fékk þá 0,9 sekúndur til þess að taka lokaskot. Úr því klikkuðu þeir og því þurfti að framlengja.

 

Framlengingin var að mestu leyti spennandi. Keflavík þó skrefinu á undan, leiddir áfram af fyrirliða sínum, Magnúsi Þór Gunnarssyni, en sá hafði aðeins sett 2 stig þegar framlengingin byrjaði. Undir lok hennar setur hann einn risastóran þrist, stelur bolta og setur svo tvö vítaskot niður. Sem í raun hefðu átt að klára leikinn. Haukar hinsvegar neituðu að gefast upp og gaf ungstirni þeirra, Kári Jónsson, þeim ágætan möguleika á að ná Keflavík aftur á lokasekúndum framlengingarinnar, en það var of lítið og of seint hjá þeim. Því fór svo að Keflavík fór með 3 stiga sigur af hólmi, 85-88.

 

Maður leiksins var leikmaður Keflavíkur, Earl Brown, en hann skoraði 32 stig, tók 11 fráköst, gaf 3 stoðsendingar og stal 2 boltum á þeim 37 mínútum sem hann spilaði.

 

 

Myndasafn

Tölfræði

 

 

Umfjöllun, viðtöl / Davíð Eldur 

Myndir / Axel Finnur Gylfason