Í kvöld tryggðu Þór frá Þorlákshöfn sér í fyrsta sinn í sögu félagsins ferð í úrslitaleik Powerade bikars karla með 100-79 sigri á Keflavík. Það var mikil stemmning í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn en stuðningsmannasveitir beggja liða voru mættar og létu vel í sér heyra. Leikurinn var hraður og mikið fyrir augað.

Þórsarar byrjuðu leikinn vel og náðu snemma 17-9 forystu en Keflvíkingar voru fljótir að ná Þórsurum og var staðan eftir fyrsta leikhluta jöfn, 22-22. 

Annar leikhluti var afar jafn og náði hvorugt liðið meira en 4ja stiga forystu í leikhlutanum, fór svo að heimamenn í Þór höfðu forystuna, 48-46, þegar gengið var til búningsklefa í hálfleik. 

Vance Hall átti stórgóðann fyrri hálfleik fyrir Þór, með 20 stig, sem og Magnús Már Traustason fyrir Keflavík sem var 18 stig. Leikurinn hélst áfram mjög jafn í þriðja leikhluta en það voru Keflvíkingar sem leiddu 69-67 að honum loknum, en þeir urðu þó fyrir missi þegar að þeir misstu Reggie Dupree af velli með 5 villur um miðbik leikhlutans. 

Vatnaskil urðu í leiknum um miðjan fjórða leikhluta þegar Þórsarar náðu 6 stiga forystu 79-73 með nokkrum góðum sóknum. en þetta virtist slá Keflvíinga svolítið útaf laginu því að Þórsarar bættu bara í forystuna og kláruðu leikinn með 21 stiga sigri, 100-79. Þórsarar spiluðu feykilega vel í fjórða leikhluta og mikil stemmning innan liðsins en allur vindur var úr Keflvíkingum undir  restina af leiknum. 

Vance Hall átti stórleik fyrir Þór, með 40 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar. Einnig voru þeir Ragnar Örn Bragason og Grétar Ingi Erlendsson drjúgir fyrir Þór. Hjá Keflvíkingum voru þeir Magnús Már Traustason og Valur Orri Valsson góðir í fyrri hálfleik, en þeir höfðu mjög hljótt fyrir sér í þeim síðari. Þórsarar náðu að halda vel aftur af Earl Brown Jr. en hann gerði einungis 11 stig í leiknum. 

En með þessum úrslitum er ljóst að Þór Þorlákshöfn er að fara í fyrsta skipti í Laugardalshöllina að leika til bikarúrslita þann 13. febrúar næstkomandi,  en þar mæta þeir KR-ingum og ekki við öðru að búast en að það verði hörkuleikur. 

Tölfræði leiksins

Myndir/ Davíð Þór Guðlaugsson
Umfjöllun/ Vilhjálmur Atli Björnsson