Snæfell komst í dag í undanúrslit Poweradebikarkeppninnar með öruggum sigri gegn Val að Hlíðarenda. Lokatölur voru 58-78 Hólmara í vil. 

Valskonur byrjuðu leikinn betur og komust í 10-2. Eftir það var eins og lok væri á körfunni og engin skot vildu ofan í. Snæfellskonur hertu varnarleikinn og Valsliðið braut trekk í trekk klaufalega af sér. Snæfell jafnaði leikinn hægt og rólega af vítalínunni. Eftir fyrsta leikhluta voru þær komnar 6 stigum yfir og litu ekki til baka eftir það.

Snæfelli tókst að halda Guðbjörgu og Hallveigu í skefjum, en þær ásamt Karismu Chapman höfðu séð um stigaskorun liðsins í deildarleik liðanna í vikunni. Í hálfleik var staðan orðin 30-40 og í seinni hálfleik gáfu Snæfellingar ekkert eftir, því þá tókst þeim líka að loka á Karismu.

Denise Palmer var allt í öllu hjá Snæfelli bæði í vörn og sókn þó skotnýtingin væri ekki upp á það besta. Bryndís spilaði mjög góða vörn á Karismu Chapman, sérstaklega í síðari hálfleik. Liðsheildin hjá Snæfelli skóp þennan sigur því flestir lausir boltar lentu hjá þeim og boltinn gekk vel í sókninni.

Tölfræði leiksins

Myndasafn – Torfi Magnússon