Nýliðar FSu glíma nú við meiðsladrauginn leiðinlega en í gær voru þeir Ari Gylfason og Chris Caird í borgaralegum klæðum þegar FSu mátti fella sig við skell í nágrannaglímunni gegn Þór Þorlákshöfn í Domino´s-deild karla.

Gylfi Þorkelsson formaður KKD FSu sagði Karfan.is að báðir hefðu þeir verið að spila á meiðslum síðan í nóvembermánuði. 

 

„Eftir myndatöku er ljóst að Ari er ekki slitinn eða þannig laskaður á öxl að hann þurfi að fara í aðgerð. Óvíst er samt hve langan tíma það mun taka að koma honum í lag, a.m.k. nokkrar vikur. Caird fær viðtal við sérfræðing á föstudag í næstu viku þar sem niðurstöður úr rannsóknum ættu að liggja fyrir og þá kemur í ljós hvort hann verður meira með í vetur. Læknar bönnuðu honum að spila meira meðan þessi óvissa er fyrir hendi, til að koma í veg fyrir hugsanlegar frekari skemmdir ef hann þjösnast svona áfram á skrokknum,“ sagði Gylfi en það er annar mjaðmarliðurinn sem er að angra Caird. 

 

Báðir eru þeir Ari og Caird kjölfestuleikmenn í liði FSu og ljóst að baráttan við að halda sæti í deildinni verður enn brattari fyrir nýliðana án þessara leikmanna. 

Mynd/ Caird í leik með FSu