Það var áreynslulaus sigur hjá Breiðablik í kvöld þegar þeir tóku á móti Reyni Sangerði í 1. deild karla. Hjá heimamönnum var Ragnar Jósef Ragnarsson stigahæstur með 17 stig en 11 af 12 leikmönnum Breiðabliks komust á blað í kvöld. 

 

Fyrir leikinn í kvöld voru gestirnir frá Sandgerði stigalausir á botni deildarinnar en Breiðablik með 10 stig í 7. sæti. Töluverður getumunur er á liðunum og leikurinn kannski takmarkað spennandi fyrir vikið. Reynir Sandgerði var yfir fyrstu 3 mínúturnar, staðan þá 2-4, en eftir það komst Breiðablik yfir og sigldi svo örugglega fram úr gestunum. 

 

Blikarnir fóru nokkuð brösulega af stað og ekki leið á löngu áður en fyrstu byrjunarliðsmönnunum var skipt út af. Zachary Warren reyndist gestunum erfiður en á rúmum þremur mínútum tókst honum að setja niður 7 stig, stela boltanum einu sinni og gefa 2 stoðsendingar. Hann var svo kallaður á bekkinn um miðjan leikhlutann en Breiðablik gat leyft sér að spila á óreyndari mönnum enda komnir með gott hald á leiknum. Leikurinn spilaðist í raun nokkuð jafnt í þessu fari. Annað liðið einfaldlega mun betra og réði því algjörlega hvernig leikurinn spilaðist.

 

Eins og lesendum Karfan.is er kunnugt þá gekk Helgi Björn Einarsson nýverið í raðir Breiðabliks eftir að hafa beðist lausnar undan samningi sínum við Hött í Dominos Deildinni. Hann spilaði sinn fyrsta leik í grænu í kvöld og skilaði flottum tölum. Helgi var með 8 stig og 100% nýtingu, 6 fráköst, 4 stoðsendingar, 1 varið skot og 17 framlagsstig á rúmum 16 mínútum. Fyrir áhugasama um tölfræði er gaman að segja frá því að einungis þrír leikmenn Hattar skoruðu meira en 8 stig í sínum leik í kvöld. Lið Hattar án þessarra þriggja leikmanna var samanlagt með 16 stig og 10 framlagsstig. Greinilegt að mömmustrákar geta skilað ágætis tölum líka.

 

Brei?ablik-Reynir Sandger?i 103-66 (23-11, 22-15, 28-19, 30-21) 

Breiðablik: Ragnar Jósef Ragnarsson 17, Zachary Jamarco Warren 15/7 stoðsendingar, Sveinbjörn Jóhannesson 13/6 fráköst, Egill Vignisson 11/6 fráköst, Snorri Vignisson 10/8 fráköst, Hlynur Logi Víkingsson 8/6 fráköst, Þröstur Kristinsson 6/4 fráköst, Snjólfur Björnsson 6/5 fráköst/6 stoðsendingar, Halldór Halldórsson 6/4 fráköst, Breki Gylfason 6, Ásgeir Nikulásson 5, Bjarni Steinn Eiríksson 0. 

Reynir Sandgerði: Guðmundur Auðun Gunnarsson 16, Atli Karl Sigurbjartsson 12/5 fráköst, Brynjar Þór Guðnason 9/6 fráköst, Birkir Örn Skúlason 8, Eðvald Freyr Ómarsson 7/5 fráköst, Elvar Þór Sigurjónsson 4/8 fráköst, Kristján Þór Smárason 4, Róbert Ingi Arnarsson 2/5 fráköst, Garðar Gíslason 2, Ágúst Einar Ágústsson 2.