Myndarleg sigurganga Skallagrímskvenna lenti á stöðvunarskyldu í kvöld þegar Borgnesingar mættu í heimsókn í Ljónagryfjuna í 1. deild kvenna. Njarðvíkingar færðu Skallagrím sinn fyrsta ósigur á tímabilinu eftir þrettán leikja sigurgöngu, lokatölur 79-65 Njarðvík í vil.

Carmen Tyson-Thomas splæsti í tröllatvennu í liði Njarðvíkinga með 34 stig og 23 fráköst! CTT lét ekki þar við sitja heldur var einnig með 6 stoðsendingar og 3 stolna bolta. Næst henni í liði Njarðvíkinga var Soffía Rún Skúladóttir með 17 stig og þar af 5/9 í þristum.

 

Hjá Skallagrím var Erikka Banks með 23 stig og Kristrún Sigurjónsdóttir bætti við 17 stigum og tók 9 fráköst. 

 

Þrátt fyrir ósigurinn í Ljónagryfjunni í kvöld eru Borgnesingar engu að síður með myndarlega forystu í deildinni en Skallagrímur hefur 26 stig á toppnum, KR í 2. sæti með 14 stig og Breiðablik og Njarðvík í 3.-4. sæti bæði með 12 stig þar sem Blikar hafa betur innbyrðis. 

Tölfræði leiksins

Myndir úr leiknum

Myndir/ Skúli Sigurðsson