Það var lyktin af þorranum sem mætti stuðningsmönnum liðanna þegar þeir komu í TM höllina (Sláturhúsið)  við Sunnubraut í Keflavík í kvöld. Búið að rýma húsið eftir glæsilegt þorrablót þeirra Keflvíkinga síðastliðna helgi og heimamenn tilbúnir að fylgja gleðinni eftir með sigri á nágrönnum sínum í Njarðvík. Í húfi var mont-rétturinn í bæjarfélaginu en mikið var búið að kynda undir leiknum undanfarna daga á samfélagsmiðlunum.

 

Keflavíkingar komu inn í leikinn á toppi deildarinnar. Höfðu unnið tvo fyrstu leiki ársins í deildinni ásamt því að slá út Njarðvík-b í bikarnum.Njarðvík unnu síðasta leik í deildinni en þar á undan duttu þeir út í bikarnum á móti KR og töpuðu illa úti í fyrsta leik sínum á árinu gegni Hetti.Njarðvík skarta nýjum erlendum leikmanni í kvöld en Jeremy Atkinon leikur með liðinu en hann var á mála hjá Stjörnunni á síðasta tímabili.

 

Fyrri viðureign þessara liða endaði með sigri Keflavíkur í Ljónagryfjunni í Njarðvík þannig að landeigendurnir áttu harma að hefna gegn Keflavík. 

 

Leikurinn byrjaði fjörlega en eftir að Njarðvík skoraði fyrstu stigin kom 7-0 kafli hjá heimamönnum þar sem Reggie Dupree fór fyrir heimamönnum. Hraðinn í leiknum var mikill og mikil barátta í liðunum og ljóst að mikið var undir. Njarðvík náði að snúa taflinu við og komust í 7-11 með góðum sóknum. Earl Brown var ekki á því að missa gestina frá sér og skellti í góða troðslu þegar leikhlutinn var um það bil hálfnaður. Leikurinn var mjög jafn en hjá gestunum var Haukur Helgi öflugur og kom hann Njarðvík í 17-21 með góðri 3.stiga körfu. Í kjölfarið setti Jeremy Atkinson góða körfu og kom gestunum í 6 stiga forystu 17-23. Þrátt fyrir fína vörn hjá Njarðvíkingum náðu heimamenn að saxa á forskotið og koma því í 2 stig 21-23 þegar leikhlutinn var úti.

 

2 leikhluti byrjaði frekar rólega þar sem bæði lið virtust ekki geta klárað sóknir almennilega. Oddur Kristjáns opnaði leikhutann með góðri 3.stiga körfu og kom gestunum í 21-26. Þrátt fyrir fínan leik náðu gestirnir í Njarðvík ekki að slíta sig lausa og voru heimamenn alltaf í hálsmálinu á þeim. Logi Gunnars fór fyrir sínum mönnum í vörn og var hann að spila stífa vörn á Val Orra sem komst lítið áleiðis. Logi minnti líka á sig í sókninni og kom hann Njarðvík í 29-32 með góðu skoti. Guðmundur Jónsson bauð næst upp á netta ballett kennslu þegar hann snéri sig í gegnum vörn Njarðvíkur og lagði boltann ofaní 31-32. Reggie Dupree og Earl Brow kláruðu svo leikhlutann fyrir Keflavík með góðum körfum á síðustu mínútunni og staðan í hálfleik var  44-39.

 

Í hálfleik var Reggie Dupree í sérflokki hjá heimamönnum kominn með 14 stig en næstur honum var Earl Brown með 7 stig. Hjá gestunum var Haukur Helgi búin að hnoða í tvennu með 10 stig / 10 fráköst en Hjörtu Hrafn var einnig með 10 stig eftir að hafa verið drjúgur undir körfunni.

 

Í 3 leikhluta komsut heimamenn á sporið og virtust á tímabili ófærir um að hitta ekki. Ef þeir hittu ekki þá tóku þeir frákastið og kláruðu eins og Valur Orri gerði vel þegar hann fylgdi eftir eigin skoti og hirti frákastið og lagði boltan ofaní.  Njarðvík virtust ekki hafa áhuga á að spila sömu vörn og þeir gerðu fyrr í leiknum og voru Keflvíkingar að klára sóknir oft með auðveldum körfum. Keflavík komst mest í 14 stiga mun 63-49 þegar Earl Brown kom boltanum ofaní af harðfylgi. Njarðvík náði þó að klóra í bakkan undir lok leikhlutans og komast nær heimamönnum en það var Magnús Gunnarsson sem kláraði leikhlutann með því að fífla Maciej og taka nett ,,finger roll” ofaní, staðan 70-61.

 

4 leikhluti var síðan frábær skemmtun.  Keflvíkingar voru duglegir að finna opna menn undir körfunni sem voru að setja skotin sín. Njarðvíkingar svöruðu með því að setja skotin fyrir utan en Oddur og Logi settu góðar 3.stiga körfur með stuttu millibili og Ólafur Helgi kórónaði gott áhlaup gestanna með góðri körfu og minkaði muninn í 1 stig 75-74. Taflið virtist snúast við á þessum tímapunkti þar sem hlutirnir fóru að falla með gestunum í Njarðvík. Þegar 3. mínútur voru eftir jafnar Logi Gunnars metin með 3.stiga körfu 81-81 og áhorfendur voru farnir að láta í sér heyra. Loka mínúturnar voru svo æsispennandi þar sem liðin skiptust á að skora. Earl setti 3.stiga fyrir heimamenn 84-81 en Haukur Helgi svaraði í næstu sókn með 3.stiga á móti 84-84. Jeremy Atkinson sem var drjúgur í lokaleikhlutanum fyrir Njarðvík setti góða körfu og kom þeim í 84-86 en nokkuð vantar upp á leikæfinguna hjá kappanum því hann virtist vera mjög þreyttur undir lpokin. Oddur Kristjáns tók sig til og blokkaði Val Orra hressilega þegar um 30 seúndur voru eftir og Logi setti niður gott skot úr horninu í kjölfarið og kom gestunum í 84-88 og þar með má segja að björninn hafi verið unnin. Reggie Dupree reyndi að keyra á körfuna hjá Njarðvík í næstu sókn en honum var staðfastlega meinaður aðgangur þangað af Ólafi Helga. Njarðvík silgdi svo sigrinum heim til landeigandanna en lokatölur voru 92-86. Heimamenn geta nagað sig í handarbökin fyrir að klára ekki þennan leik en þeir voru komnir með fína forystu um miðjan 3. leikhluta.

 

Reggie Dupree var atkvæðamestur í liði heimamanna en hann skoraði 22 stig/ 4 fráköst/4 stoðsendingar. Næstir honum komu Earl Brown Jr. með 19 stig/13 fráköst,  Magnús Már Traustason með 12 stig/6 fráköst, Valur Orri 10 stig/8 stoðsendingar og Magnús Gunnarsson með 8 stig.

 

Hja gestunum í Njarðvík sem gáfust aldrei upp og börðust allan leikinn voru atkvæðamestir þeir Haukur Helgi Pálsson sem var með 24 stig/ 12 fráköst og 6 stoðsendingar, Jeremy Atkinson skila fínum leik með 18 stig/ 10 fráköst, Logi Gunnars með 17 stig, Oddur Kristjáns með 10 stig sem og Hjörtur Hrafn.