Síðari leikur kvöldsins í Hólminum var karlamegin þar sem Snæfell og Höttur mættust í Dominosdeild karla. Svo virtist sem nokkrir áhorfendur hafi látið sig hverfa eftir góðan sigur Snæfellskvenna. Það voru því nokkur sæti laus í stúkunni en þeir sem létu sig hafa það að vera báða leikina skelltu sér í ilmandi Snæfellsborgara og hvöttu vel þegar leikurinn byrjaði.

 

Það þarf ekki að taka það fram að leikurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið, Snæfell finnur ilminn af úrslitakeppninni og vill alls ekki dragast enn meira í fallbaráttuna en Höttur er að berjast fyrir lífi sínu og þurftu að taka sigur alla leiðina yfir landið.

 

Það mátti sjá á mönnum að þeir voru einbeittir og ætluðu sér mikið í leiknum. Í fyrsta leikhlutanum voru það gestirnir frá Egilsstöðum sem voru skrefi á undan og voru að fá auðveldari körfur. Mirco sem spilaði á sínum tíma í Hólminum virtist ekki hafa gleymt því hvernig körfurnar virkuðu, allt fór niður hjá honum í byrjun. Hattarmenn með Tobin í fararbroddi unnu fyrsta leikhlutann 22 – 16.

 

Snæfellingar voru baráttuglaðir í öðrum leikhluta og voru ferskir menn af bekknum að koma með framlag. Kristófer og Þorbergur komu með mikla baráttu og góðar körfur. Gaman var að sjá Jón Pál Gunnarsson taka til sinna mála í leiknum. Hólmarar náðu forystunni í leikhlutanum og héldu henni nánast það sem eftir var að leiknum. Munurinn fór upp í 13 stig og niður í 6 stig og upp aftur. Það var ekki fyrr en fimm mínútur voru eftir af leiknum sem Höttur komst yfir. Snæfellingar voru kannski full miklir klaufar en það má ekki taka frábæra baráttu Hattarmanna af þeim. Þeir þjösnuðust í hvert sóknarfrákastið af öðru og fundu Tobin galopinn fyrir utan þriggja stiga línuna. Hann þakkaði pent fyrir sig og skellti tólf „second change“ stigum í andlit Snæfells, allt í einu voru Hattarmenn komnir fimm stigum yfir. Það fór um fólkið í stúkunni og jafnvel náði það niður á völlinn. Hólmarar voru þó sterkir í hausnum og komu sér aftur yfir með góðum körfum frá Sigga Þorvalds og Jóni Pál sem skoraði af vítalínunni.

 

Þegar 1 mínúta lifir af leiknum kemur Siggi Þorvalds heimamönnum fjórum stigum yfir, Höttur fer í sókn og á endanum kemur Tobin boltanum á Eystein sem smellir ísköldum þrist niður. Snæfellingar með boltann og 40 sek. eftir af leiknum. Löng sókn endar með því að Austin keyrir á vörnina sem hafði riðlast nokkuð og tekur erfitt skot yfir Tobin. Það fer ekki ofan í, þannig Höttur á möguleika á því að ræna sigri eins og Hólmarar gerðu á Egilstöðum fyrr í vetur. Frábær vörn á Tobin bjó til galopið þriggjastiga skot beint á móti körfunni fyrir Hrein Gunnar sem geigaði um leið og flautan gall. Þvílík dramatík sem hefði getað gefið Hattarmönnum sinn annan sigur í deildinni í vetur. Þeir verða að taka það úr leiknum að baráttan tekur þá mjög langt. Þeir gáfust ekki upp og fengu stig úr ýmsum áttum þó svo að Bandaríkjamaðurinn þeirra hafi verið þónokkuð með boltann. Það verður samt að telja það upp að munurinn á liðunum var framlag bekkjanna, aðeins tvö stig koma frá Hetti af bekknum en 17 frá Snæfell. Höttur hélt sér inni í leiknum með sóknarfráköstum og skoruðum körfum eftir þau, án þeirra hefði þetta átt að vera þægilegur sigur fyrir Snæfell.
Snæfellingar verða að skoða þau mál vel í níu daga fríinu sem er hjá þeim.

 

 

Snæfellingar taka stigunum fagnandi og koma sér fyrir í 8. Sæti deildarinnar tveimur stigum á undan Grindavík og ÍR. Þessi lið mætast á fimmtudaginn og mun því annað þeirra jafna Snæfell að stigum. Höttur situr eftir með sárt ennið og naga sig væntanlega í alla hendina á leiðinni heim yfir þessum tveimur ósigrum á móti Snæfell í vetur.