Strákarnir úr leikmannahópnum á EuroBasket í sumar svara nokkrum spurningum um undirbúninginn, upplifunina og hvað tekur við hjá þeim á nýju ári.

 

Nafn: Ægir Þór Steinarsson

Aldur: 24

Fjöldi landsleikja: 32

Félagslið: KR

 

Var undirbúningurinn mjög frábrugðinn því sem við myndum oftar en ekki kalla “minni” verkefni?

Já ég myndi segja það. Ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem hver einasti leikmaður sé tilbúinn að gefa kost á sér og berjast fyrir sæti í liðinu. Svo var undirbúningurinn sjálfur kannski ekki öðruvísi en það er margt sem leikmenn og þjálfarar hafa lært hvað þarf til að liðið sé tilbúið.

Hvernig minnist þú álagsins við undirbúning EM og meðan á því stóð?

Fyrir mig persónulega var álagið mjög mikið þegar ég lít tilbaka. Áður en hópurinn kom saman var æft af krafti og svo var maður tilbúinn að gefa allt í æfingarnar til þess að eiga möguleika á sæti í liðinu. Það var gjörsamlega allt gefið í þetta. Fyrir mig persónulega var álagið alls ekki mikið á meðan mótinu stóð.

 

Aðkoma þjóðarinnar, funduð þið fyrir áhuga almennings á verkefninu?

Já, ég fann fyrir miklum áhuga á verkefninu. Fólk var almennt mjög áhugasamt sem var skemmtilegt. Stuðningurinn sýndi sig líka á meðan mótinu stóð sem hjálpaði ótrúlega mikið.

 

Hvernig var að vinna úr pressunni sem fylgdi þessu?

Það var enginn pressa sem fylgdi þessu verkefni. Ég held að það hafi verið lykillinn að þessu góða gengi að menn spiluðu með hausnum og hjartanu. Um leið og þú ferð að skapa einhverja pressu sem er ekki einu sinni til þá verður þetta erfiðara fyrir þig.

 

En að umgangast stórstjörnunar, hvernig var það?

Það var auðvitað bara ákveðinn forréttindi að vera á sama stað í lífinu og flestir af bestu leikmönnum evrópu og heims.

 

Fannst þér meira stress fylgja undankepninni, og því að þurfa að tryggja sér sæti á lokamótinu, heldur en sjálfu mótinu?

Ég tók ekki þátt í undankeppninni en var mjög stressaður að fylgjast með því. Það er einhvern veginn erfiðara að vera í stúkunni að fylgjast með en á vellinum sjálfum.

 

Hvernig ert þú að melta/meta verkefnið nú þegar nokkuð er liðið frá Berlín?

Ég lít tilbaka og hugsa hversu ótrúlega jákvætt þetta mót var fyrir okkur. Ég er líka svekktur að við skyldum ekki vinna leik miðað við frammistöðu í nokkrum leikjum. En það sem er líka frábært er hvað þetta breytir miklu fyrir íslenskan körfubolta. Áhuginn eykst og það eru litlir krakkar sem trúa því að einn daginn geta þau spilað á stóra sviðinu.

 

Breytti þetta verkefni þínum framtíðarplönum í körfunni?

Nei ég myndi ekki segja það. Plönin hafa ekkert breyst hjá mér persónulega.

 

Hvernig var að koma aftur heim og í hið daglega líf?

Maður var eins og sprunginn blaðra eftir þetta mót. Það tók mann smá tíma að átta sig á þessu og koma sér niður á jörðina. Maður tók sér smá frí frá körfubolta og svo var það bara að halda áfram að lifa lífinu.

 

Hvað tekur við núna?

 

Stefnir þú á EuroBasket 2017?

Auðvitað geri ég það og við allir. Það var sett áskorun á eldri menn að halda áfram og gera aftur atlögu að eurobasket 2017. Það er ekki hægt að hætta eftir svona mót.