Stjörnumenn hafa verið á góðu skriði undanfarið og gátu haldið því áfram í Ásgarði í kvöld gegn ÍR-ingum. Breiðhyltingar sitja í 10. sæti deildarinnar og hjá þeim getur brugðið til beggja vona, stutt bæði í 8. sætið sem og fallsæti. Stjörnumenn sitja einir og sér í 3. sætinu og hafa vafalaust í hyggju að færast ekki skrefi neðar en það.

Gestirnir virkuðu ágætlega stemmdir og tilbúnir í átökin í byrjun leiks. Þrátt fyrir það, og að auki svolítið letilega líkamsburði heimamanna, komu Stjörnumenn sér fljótlega í nokkra stiga forystu. Munurinn á liðunum virtist helst vera meistari Shouse en sá maður hefur bara einn gír líkamlega sem andlega! Eftir fyrsta leikhluta leiddu heimamenn 25-16.

Það þefaði svolítið af því að um leið og fleiri en Shouse nenntu að setja alla einbeitingu í leikinn Stjörnumegin myndu þeir ganga frá gestunum. Eftir því þurftu Stjörnumenn hins vegar að bíða allnokkuð. Jonathan Mitchell var heitur fyrir gestina og sóknarleikur heimamanna ómarkviss í meira lagi. ÍR-ingar minnkuðu muninn í 28-25 og stemmningin alveg hreint ágæt þeirra megin. Þá tók Hrafn leikhlé og tókst greinilega að hleypa blóðinu svolítið á hreyfingu í sínum mönnum. Á skammri stundu komu þeir sér í 42-27 undir styrkri handleiðslu Shouse. Heimamenn virtust hins vegar ekki hafa neinn áhuga á að ganga frá leiknum og voru varla með fram að hálfleik, eftir 2-11 seiglusprett gestanna með Mitchell sjóðandi var staðan 44-38.

Værukærð og letilegir tilburðir Stjörnumanna hefðu e.t.v. getað opnað möguleika fyrir gestina í þriðja leikhluta. Það gekk hins vegar ekki hjá þeim, Mitchell kólnaði og enginn til að taka við keflinu sóknarlega. Það var þó ekki fyrr en um miðjan leikhlutann sem Stjörnumenn kláruðu verkið. Tommi Tomm gekk skyndilega til liðs við Shouse, skilaði 6 stigum á skömmum tíma og Zo og Shouse bættu við 8 stigum til viðbótar. Zo stal boltanum og skoraði auðveld tvö með troðslu þegar um 2 mínútur voru eftir og kom Stjörnumönnum í 69-54. Það var ótrúlega augljóst að þessi sprettur myndi duga, ÍR-ingar hefðu allt eins getað lagt af stað heim enda tók við 8-1 kafli fram að fjórða leikhluta, 77-55.

Formsatriði er orðið yfir fjórða leikhluta. Það vissu allir í húsinu, nema meistari Shouse! Hann var sá eini sem gladdi áhorfendur – var hræðilega sár yfir villum sem dæmdar voru á hann og spilaði eins og í jöfnum leik í úrslitakeppninni beggja megin vallar svo lengi sem hann fékk að vera inn á! Alger snillingur þessi maður. Lokatölur voru tölfræðilega fagrar, öruggur 100-80 sigur Stjörnumanna.

Þó svo að Garðbæingar hafi ekki beint þurft að troða sér inn í Ásgarð í kvöld fannst undirrituðum Stjörnuliðið ekki mæta nægilega ferskt í þennan leik. Þeir geta boðið sínum stuðningsmönnum upp á svo mikið betri körfubolta en  í kvöld. Ef þetta hefði verið UFC-bardagi unnu heimamenn á stigum í frekar tilþrifalitlum knús-bardaga. Gestirnir reyndu sitt besta en gegn jafn sterku liði og Stjörnunni er kannski eðlilegt að gefast fljótt upp þegar munurinn er kominn vel á annan tuginn.

Shouse og Zo voru bestu menn Garðbæinga og stóru mennirnir Sæmi og Tommi Þ. enduðu með ágætis framlag. Mitchell var vægast sagt áberandi hjá ÍR en hann fékk alltof lítinn stuðning frá liðsfélögum sínum í kvöld.

Stjarnan – ÍR 100-80
Stjarnan
: Al'lonzo Coleman 22, Justin Shouse 21, Tómas Þórður Hilmarsson 16, Sæmundur Valdimarsson 13, 
Tómas Heiðar Tómarsson 13, Marvin Valdimarsson 8, Arnþór Freyr Guðmundsson 5, Magnús Bjarki Guðmundsson 2
ÍR: Jonathan Mitchell 35, Sveinbjörn Claessen 11, Hákon Örn Hjálmarsson 8, Eyjólfur Ásberg Halldórsson 7, 
Daði Berg Grétarsson 6, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 4, Vilhjálmur Theódór Jónsson 4, Sæþór Elmar Kristjánsson 3, Kristján Pétur Andrésson 2

Myndasafn

Umfjöllun/ Kári Viðarsson
Myndir/ Jón Björn Ólafsson