Haukar fengu Stjörnuna í heimsókn í kvöld í Hafnarfjörðinn í 13. umferð Dominosdeildar kvenna. Chelsie Alexa Schweers mætti þar sínu gamla félagi í fyrsta deildarleik sínum með Haukum. Það er ekki hægt að segja að hún hafi fengið blíðar móttökur því það var tvívegis brotið óíþróttamannslega á henni. Haukar fóru einnig illa með Stjörnuna en þær sundurspiluðu þær 50-14 í öðrum og þriðja leikhluta sem lagði grunninn að 42 stiga sigri þeirra í kvöld en lokatölur voru 96-54.

 

Haukastúlkur voru mjög grimmar í upphafi leiksins og hrifsuðu boltann af þeim bláklæddu í þrígang á fyrstu tveimur mínútum leiksins. Var þetta góður vísir af því sem að koma skildi en Haukar voru með 26 stolna bolta í leiknum og Stjarnan endaði hann með 34 tapaða bolta. Haukar voru ekki mikið fyrir að fara inn fyrir þriggjastiga línuna í fyrsta leikhlutanum en þær settu niður 5 þrista í leikhlutanum og þar af var einn neyðarþristur sem Sólrún Inga Gísladóttir setti niður einn og hálfan meter frá línunni þegar skotklukkan var að renna út. Að sama skapi voru þær ekkert alltof uppteknar af eigin teig og gengu Stjörnustúlkur þar inn eins og þeim sýndist og nýtti Hafrún Hálfdánardóttir sér það mjög vel en hún skoraði þar 9 stig og hélt sínu liði inn í leiknum. En Haukar leiddu 28-22 af fyrsta leikhlutanum loknum.

 

Chelsie Alexa Schweers hóf annan leikhlutann á þristi og þar með 6 þrist Hauka á aðeins 11 mínútum. Þá hægðist á leiknum og gengu hlutirnir illa upp á báðum liðum. Haukar tóku þá á rás og áttu 16-0 kafla og héldu Stjörnunni án stiga í 7 mínútur. Leikhlutinn fór 19-6 fyrir Hauka sem voru komnar í nokkuð þægilega forystu í hálfleik, 47-28.

 

Þriðji leikhlutinn var eins og æfing fyrir Hauka þar sem þær voru bara að einbeita sér að spila leikkerfin sín eins vel og hægt væri. Ekki var varnarleikurinn síðri þar sem Stjörnunni gekk ekkert að finna glufur á henni og gerðu Haukastúlkur enn betur í þessum leikhluta en þeim öðrum og rótburstuðu hann 31-8 þar sem þær áttu meðal annars 22-0 kafla. Staðan 78-36 og með ólíkindum að heill leikhluti væri eftir.

 

Eftir að hafa litið út fyrir að vera algjörlega búnar að leggja árar í bát rifu Stjörnustúlkur sig upp, leiddar áfram af Bryndísi Hönnu Hreinsdóttur sem skoraði 8 stig í fjórða, og kláruðu leikinn með sæmd en hann leikhlutinn fór 18-18.

 

Tölfræði leiksins

Viðtöl