Keflvíkingar sóttu erfiðan sigur á Egilsstöðum í kvöld í leik sem segja má að hafi einkennst af sterkum varnarleik. Leikurinn var æsispennandi þar sem liðin skiptust á forystu og munurinn sjaldnast meiri en fimm stig. Keflavík leiddi með þrem stigum eftir fyrsta leikhluta 18-21. Í öðrum leikhluta var lítið um körfur, þó átti Tobin tilþrif leiksins með hrikalegri aley-oop troðslu eftir sendingu frá Eisteini og Höttur vann leikhlutann 12-10 og staðan í hálfleik 30-31 Keflavík í vil. 

Í seinni hálfleik var sama uppá teningnum og gríðarleg spenna og barátta beggja liða til fyrirmyndar. Eftir þriðja leikhluta var staðan 47-49 fyrir gestina. Fjórði var síðan í járnum fram á síðustu mínútu þar sem gestirnir komust í tveggja stiga forystu þegar 23 sekúndur voru eftir með víti frá Earl Brown. Tobin tókst ekki að skora í næstu sókn og heimamenn brutu strax á Brown sem setti annað vítið og Keflavík með þriggja stiga forskot þegar níu sekúndur voru eftir. Gestirnir voru síðan skynsamir í síðustu sókn heimamann þar sem þeir lokuðu vel á bakverði Hattarmanna og síðasta skotið kom í hlut Mirko sem geigaði og Keflavík hampaði góðum þriggja stiga sigri 66-69.

Tobin var sem fyrr góður þótt hann hafi ekki skorað jafn mikið og oft áður með 20 stig, 7 fráköst, 5 stoðsendingar og 4 stolna. Mirko var líka mjög öflugur með 21 stig, 11 fráköst, 2 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Höttur rúllaði líka meira á bekknum og fengu framlag frá mun fleirum en oft áður og er vert að minnast á 17 ára gamlan Gísla nokkurn Hallson sem kom inn á í 15 mínútur og setti 7 stig,tók 3 fráköst og stal einum bolta.

Earl Brown var stigahæstur gestanna með 14 stig og 4 fráköst. Næstur kom Valur Orri með 11 stig og 5 fráköst.

Tölfræði leiksins

Myndasafn – Atli Berg Kárason

Umfjöllun/ Frosti Sigurðarson