Sem fyrr þá er það Hólmurinn sem heillar en í kvöld ætla Hólmarar að blása til tvíhöfða í Domino´s-deild karla og kvenna. Það verður kvennalið Snæfells sem ríður á vaðið kl. 18:00 þegar topplið Hauka mætir í heimsókn í stórslag umferðarinnar og að leik loknum mætast Snæfell og Höttur í Domino´s-deild karla eða kl. 20:15.

Báðir leikirnir verða í beinni útsendingu hjá Stöð 2 Sport.  

Kvennaleikurinn er sannkallaður toppslagur en Snæfell og Haukar eru jöfn með 24 stig á toppi deildarinnar. Haukar eiga leik til góða á Hólmara, Snæfell með 24 stig eftir 14 leiki en Haukar líka og það eftir 13 leiki. Tíu stig eru í næstu lið fyrir neðan og má ansi margt fara úrskeiðis í þessum herbúðum til að liðin arki ekki áfram í úrslitakeppnina. Hin tvö lausu sætin virðast vera eitthvað sem Valur, Keflavík og Grindavík ætla að freista þess að berjast um en lengra er í nýliða Stjörnunnar með 6 stig og Hamar á botni deildarinnar með 2 stig. 

Titringurinn er ekki síðri fyrir karlaleiknum því Höttur hefur náð í sín fyrstu stig og eiga harma að hefna gegn Hólmurum sem stálu sigrinum á Egilsstöðum með flautukörfu frá íþróttamanninum mikla, Sherrod Nigel Wrigt sem leiðir úrvalsdeildina í stigaskori með 27,31 stig að meðaltali í leik. Höttur hefur tapað öllum sex útileikjunum sínum til þessa og eru í 12. sæti með 2 stig en Snæfell er í 10. sæti með 10 stig og því barátta Hattar fólgin í að halda lífi í viðleitni sinni til að festa sætið í úrvalsdeild og þá er ekkert í boði annað en sigur í kvöld. 

Nóg við að vera annars í kvöld en hér að neðan gefur að líta alla leiki dagsins:
 

19-01-2016 18:00 Úrvalsdeild kvenna Snæfell   Haukar Stykkishólmur
19-01-2016 19:15 1. deild kvenna Skallagrímur   KR Borgarnes
19-01-2016 19:15 Drengjaflokkur Njarðvík dr. fl.   Haukar dr. fl. Njarðvík
19-01-2016 20:00 Drengjaflokkur Breiðablik dr. fl.   Fjölnir dr. fl. Smárinn
19-01-2016 20:00 Drengjaflokkur Keflavík dr. fl.   Grindavík dr. fl. TM höllin
19-01-2016 20:00 Unglingafl. kvenna bikar Grindavík ungl. fl. st.   Njarðvík ungl. fl. st. Mustad höllin
19-01-2016 20:15 Úrvalsdeild karla Snæfell   Höttur Stykkishólmur
19-01-2016 20:30 Drengjaflokkur Valur dr. fl.   Fjölnir b dr. fl. Valshöllin
19-01-2016 21:10 2. deild karla Haukar b   Fjölnir b Schenkerhöllin