Mikið var við að vera hjá íslenskum leikmönnum í bandaríska háskólaboltanum í nótt. Lovísa Björt Henningsdóttir og kvennalið Marist eru á hörku siglingu en hið sama verður ekki sagt um karlalið skólans. Þá eru Kristófer Acox og Furman einnig í góðum gír en við förum í gegnum alla leiki næturinnar hér að neðan.

1. deild  háskólaboltans 

 

Sjö í röð hjá kvennaliði Marist

Lovísa Björt Henningsdóttir og félagar í Marist háskólanum eru á góðu skriði þessi dægrin en í nótt vann liðið sinn sjöunda leik í röð! Marist hafði þá betur gegn Rider skólanum þar sem lokatölur voru 74-56. Lovísa kom inn af bekknum og gerði 3 stig á 21 mínútu. Hún var einnig með 3 fráköst og 2 stoðsendingar. Marist er á toppi MAAC riðilsins með 10 sigra og 2 tapleiki. 

 

Fjórir í röð hjá Furman! 

Furman vann sinn fjórða leik í röð í háskólaboltanum þegar East Tennessee State mætti í heimsókn til Greenville. Lokatölur 74-70 Furman í vil. Kristófer Acox gerði 10 stig og tók 2 fráköst á 27 mínútum í liði Furman en Stephen Croone var stigahæstur með 21 stig og 9 fráköst. Með sigrinum komst Furman upp í 2. sæti SoCon-riðilsins með 7 sigra og 3 tapleiki. Chattanooga er á toppnum með sex sigra og einn tapleik. 

 

LIU lá heima

LIU Blackbirds urðu að fella sig við ósigur á heimavelli í nótt þegar Farleigh Dickinson kom í heimsókn. Lokatölur 85-88. Martin Hermannsson var stigahæstur í liði LIU með 21 stig, 7 stoðsendingar, 3 fráköst og 2 stolna bolta. LIU var að klára þrjá heimaleiki í röð þar sem aðeins einn sigur kom í hús. Eftir leik næturinnar er LIU í 7.-9. sæti NEC riðilsins með 4 sigra og 6 tapleiki. 

 

Sigur á útivelli hjá St. Francis

Dagur Kár Jónsson gerði 3 stig í leiknum fyrir St. Francis en hann skilaði 10 mínútum af bekknum og var auk þess með 2 stoðsendingar. Gunnar Ólafsson var enn fjarverandi í liði St. Francis vegna meiðsla. Chris Hooper var stigahæstur hjá St. Francis en hann skoraði 15 stig komandi af bekknum. St. Francis er nú í 5. sæti NEC riðilsins með 5 sigra og 5 tapleiki. 

 

Rio Grande tapaði heima

Hildur Björg Kjartansdóttir og félagar í University of Texas Rio Grande Valley máttu fella sig við ósigur í nótt þegar New Mexico State var í heimsókn. Lokatölur 57-68 þar sem Hildur Björg var með myndarlega tvennu eða 12 stig og 11 fráköst á 36 mínútum. Þetta var annar ósigur Rio Grande Valley í WAC riðlinum en þrátt fyrir tapið er liðið í 2. sæti riðilsins á eftir NM State sem unnið hefur alla sjö leiki sína í riðlinum.

 

Tíunda tapið í röð hjá Maris! 

Kristinn Pálsson og félagar í Marist eru ekki að finna taktinn þessi dægrin en skólinn hefur tapað tíu leikjum í röð! Í nótt mátti liðið fella sig við ósigur gegn Albany skólanum, lokatölur 66-77. Kristinn gerði 3 stig á 20 mínútum fyrir Marist og var einnig með 3 fráköst. Marist situr á botni MAAC riðilsins með einn sigur og tíu tapleiki í riðlinum.

 

2. deild háskólaboltans 

 

Þrír í röð hjá Barry

Elvar Már Friðriksson og félagar í Barry unnu sinn þriðja leik í röð í nótt þegar liðið mætti Lynn skólanum. Lokatölur voru 94-83 Barry í vil. Elvar gerði 12 stig og gaf 6 stoðsendingar í leiknum og þá var hann einnig með 2 stoðsendingar á 34 mínútum. Barry er í 2. sæti í Sunshine State Conference (SSC) með 8 sigra og 2 tapleiki. 

 

Þriðji sigurinn í röð hjá Columbus 

Matthías Orri Sigurðarson og félagar í Columbus unnu sinn þriðja leik í röð í háskólaboltanum í nótt þegar liðið mætti Georgia Southwestern. Lokatölur voru 76-59 þar sem Matthías Orri kom með 3 stig í púkkið af bekknum. Matthías fékk 10 mínútur í leiknum og tók einnig 2 fráköst. Columbus leikur í Peach Belt Conference (PBC) en þar eru tvær deildir, austur og vestur. Columbus leikur í vestur-deildinni og trónir þar á toppnum eftir 12 leiki með 9 sigra og 3 tapleiki en Montevallo og Young Harris skólarnir eru í 2.-3. sæti með sama árangur en Columbus hefur betur innbyrðis.