Það var jarðarför í Sandgerði í kvöld þegar Ísfirðingar mættu heimamönnum í Reyni í 1. deild karla. Þrátt fyrir að einungis 4 stig skyldu liðin að í deildinni þá var KFÍ í allt öðrum klassa en Reynismenn í leiknum og unnu að lokum 54 stiga sigur, 62-116.

 

 

KFÍ hafði undirtökin allt frá byrjun og leiddi 28-49 í hálfleik. Í þriðja leikhluta héldu Ísfirðingum engin bönd en í honum skoruðu þeir 33 stig á móti 15 stigum heimamanna. Fór þar mikinn gamla brýnið Pance Ilievski en hann setti niður 4 þrista á 3 mínútna kafla um miðjan leikhlutann. 

 

Ísfirðingar héldu uppteknum hætti í fjórða leikhluta sem þeir sigruðu 34-19.

 

Stigahæstur hjá KFÍ var Pance Ilievski með 21 stig en hann setti niður 7 þrista í leiknum sem eru jafn margir þristar og hann hafði skorað til samans á tímabilinu til þessa. Annars komust allir leikmenn KFÍ á blað í leiknum. Birgir Björn Pétursson setti niður 20 stig og tók 9 fráköst, Kjartan Steinþórsson 14 stig, Gunnlaugur Gunnlaugsson 12 stig, Nebojsa Knezevic daðraði við þrennuna með 11 stig, 9 fráköst og 8 stoðsendingar, Florijan Jovanov skoraði 9 stig og tók 11 fráköst, Nökkvi Harðarson 9 stig, Björn Jónsson 8 stig, Daníel Midgley 5 stig, Daníel Friðriksson 4 stig og fyrrum landsliðsmiðherjinn Birgir Örn Birgisson rak lestina með 3 stig sem að sjálfsögðu komu úr þriggja stiga skoti.

 

Hjá Reyni var Guðmundur Gunnarsson stigahæstur með 13 stig, Kristján Smárason 9 stig, Brynjar Guðnason 9 stig, Garðar Gíslason 8 stig, Ágúst Ágústsson 6 stig, Eðvald Freyr Ómarsson 6 stig, Atli Sigurbjartsson 5 stig og Róbert Arnarsson 4 stig.

Texti: Tjörvi
Mynd: Halldór Sveinbjörnsson