Erlendir leikmenn eru fyrirferðamiklir í íslenskum körfubolta og hafa verið það í gegnum tíðina. Ástæðan er svo sem ekki flókin, þeir eru betri í körfubolta en Íslendingar. Erlenda leikmenn má oftar en ekki greina mjög hratt í sundur frá íslenskum leikmönnum. Ef leikurinn er byrjaður eru það oftar en ekki leikmennirnir sem eru með flestu stigin og fráköstin á tölfræðiskýrslunni. Vilji menn vita hverjir erlendu leikmennirnir eru fyrir leikinn er gott að kíkja á stigatöfluna því nöfn erlendra leikmanna eru jú oftar en ekki öðruvísi en íslensku nöfnin. Þegar slíkri stigatöflu nýtur ekki við, s.s. í braggahúsi Drangs á Vík í Mýrdal, þarf að beita öðrum leiðum. Þá er gott að kíkja yfir lið anstæðingsins og athuga t.d. hvaða leikmaður er í besta forminu, hvaða leikmaður er hæstur, hvaða leikmaður lítur út fyrir að hafa verið í sól o.fl. handhæg ráð sem ekki verður farið nánar út í.

 

Það var einmitt ofangreint sem fyrrum þjálfari minn hjá Breiðablik gerði á haustmánuðum 2005 þegar ég lék mitt fyrsta tímabil með liðinu. Við vorum á leið að spila við Drang frá Vík í Mýrdal og þar hafði leikmaður að nafni Justin Shouse farið mikinn í fyrstu fjórum leikjum tímabilsins og verið með um 40 stig að meðaltali. Nú í þann mund sem við erum að fara inn í klefa eftir upphitunn kallar hann á mig og segir; „Sævar, ég vill að þú dekkir Justin Shouse í þessum leik og ég vill að þú einbeitir þér algjörlega að því að stoppa hann“. Hér ber að taka fram að bara þessi setning ein og sér hefði dugað sem rökstuðningur fyrir bröttvikningu þjálfarans því þeir fáu sem hafa séð mig raunverulega spila körfubolta, en ekki sitja á bekknum, ættu að vita að mínir styrkleikar, ef einhverjir voru, lágu ekki varnarmegin á vellinum. Nú en hvað um það. Mér lék forvitni á að vita hver þessi  Justin Shouse væri því illa mátti greina að Drangur hefði á að skipa erlendum leikmanni, hvað þá kana.

 

Þjálfarinn bendir mér á leikmann nr. 8 í Drang og segir; „Þetta er Justin“. Leikurinn hefst og ég verð seint sakaður um að hafa ekki haldið aftur að Justin Shouse. Þegar ég arka inn í klefa er ég þess fullviss að hann hefur ekki skorað nema í mesta lagi þrjár körfur en mér þótti þó Jónas Pétur Ólafsson, Óli Hrafn og hinir drengirnir í liðinu aðeins mega taka betur á því. Þegar inn í klefa er komið kemur þjálfarinn þangað með látum og lætur mig heyra það og segir eitthvað á þessa leið; „Sævar, hvað í andskotanum ertu búinn að vera að gera – sagði ég þér ekki að stoppa Justin?“ Ég svaraði á þá leið að það hefði ég nú heldur betur gert, kappinn væri varla með meira en 6 stig. „6 stig?!? Hann er með 24 stig drengur!!“.

 

Það var þarna sem runnu á mig tvær grímur og ég spyr; „Ha, númer hvað er Justin?“. „Hann er númer 12“, svaraði þjálfarinn. „12? – ég er búinn að vera dekka leikmann númer 8…“.  Þá var það Serbinn í liðinu því hvern hefði grunað að leikmaðurinn sem skorað hafði 40 stig að meðaltali í leik, og átti eftir að verða einn besti erlendi leikmaður í sögu íslensks körfubolta, væri í raun þessi litli, brosmildi krulluhaus sem við hlógum af í upphitun. Ég sem hafði beðið eftir því að geta látið Jónas og Óla Hrafn heyra það inn í klefa fyrir að láta ofvirkan krullhærðan bóndastrák með mjaðmakippi vera að slátra okkur. Nú ég dekkaði réttan mann í seinni hálfleik og fer sú varnarframmistaða seint í sögubækurnar því kappinn endaði með tæp 50 stig að mig minnir og tryggði Drang sigur og brottvikningu þjálfara Breiðabliks.

 

Þessi saga kennir okkur hvað? Tja, svo sem ekki mikið nema þá helst að það er betra að vita hver erlendi leikmaðurinn í liðinu er – eða a.m.k. sá sem getur eitthvað!

 

Nokkrir sykurmolar yfir kaffinu:

– Ég hefði átt að afhenta Haukastelpunum titilinn aðeins fyrr. Veit ekki hvort þær héldu hreinlega að þær þyrftu ekki að spila leikina en eitthvað hefur þeim fatast flugið. Þær ætla sér þó greinilega titilinn því þær hafa fjárfest í kana til að auðvelda verkefnið. Frábært að það sé kominn alvöru peningur og metnaður í kvennaboltann á Íslandi…

 

-Snæfellsstúlkur eru með hörku lið og má búast við því að lokaúrslitin verði á milli þeirra og Haukastúlkna. Kaninn hjá Snæfell er hrikalega öflug og ljóst að Ingi þjálfari kann svo sannarlega að velja erlenda leikmenn því karlakaninn er einnig frábær…

 

-Njarðvíkingar tóku nágrannarimmuna við Keflavík í Domino´s deild karla með því að fella heimamenn á eigin bragði í 4. leikhluta. Njarðvík var sem sé Keflavík í Keflavík…

 

-Talandi um Njarðvík. Þeir fengu kannski ekki hinn raunverulega Moby Dick en leikmaðurinn sem mætti er svo sannarlega hvalreki. Sýnist á öllu að hann hafi látið jónurnar í friði, öfugt við Moby Dick, en þess í stað vaðið beint í „the munchies“. Ef hann þyrfti að velja sér íslenskt nafn yrði það líklega Hrefna…

 

-Hvað er annars að frétta á íþróttadeild RÚV? Eru þeir með harpexheilahrörnun? Eru þeir ekki meðvitaðir um að Ísland datt úr leik í riðlakeppninni á EM í handbolta? Að RUV skuli vera með sýningarréttinn á bikarkeppni KKÍ er auðvitað rannsóknarefni. Það væri nær að láta ÍNN fá sýningaréttinn. Það mætti  þess vegna taka leikina upp á Iphone 4s og láta Ingva Hrafn lýsa þeim í gegnum Skype frá Florida því það væri betri markaðssetning en hafa keppnina í höndum RUV…

 

– Óska að lokum Snæfell og Grindavík í kvennaflokki og KR og Þór Þorlákshöfn í karlaflokki til hamingju með að vera komin í höllina. Það verða óvænt úrslit í öðrum hvorum leiknum!

 

Annars bara góður!

Sævar Sævarsson