„Þetta er ekki staða sem maður vill nokkurntíman vera í og alls ekki á mínum aldri,“ sagði Hlynur Bæringsosn í samtali við Karfan.is í kvöld en sænska körfuknattleikssambandið mun líklegast beita Sundsvall Dragons refsiaðgerðum vegna vangoldinna dómaralauna.

Refsiaðgerðirnar felast í því að erlendir leikmenn Sundsvall fá ekki að spila en Hlynur sagði Karfan.is í kvöld að upplýsingar frá félaginu gæfu til kynna að útistandandi skuldir hafi þegar verið greiddar. „Mér hefur verið sagt að þetta eigi að bjargast en það er ekki útséð með hvernig þetta fer,“ sagði Hlynur sem vill helst ekki hugsa um þetta.

 

„Það hefur verið orðrómur lengi hér að það sé fjárhagsbasl á félaginu og það sést líka að dregið hefur verið saman í rekstrinum, ég var ekki grunlaus um þessa stöðu og það er bara erfitt að standa í þessu,“ sagði Hlynur.

 

Félagaskiptaglugginn á Íslandi lokar 31. janúar næstkomandi, aðspðurur hvort það væri möguleiki á því að staðan í Svíþjóð myndi draga hann hingað heim vildi Hlynur lítið fyrir það gefa. „Okkur fjölskyldunni líkar mjög vel hérna og værum til í að vera eitthvað áfram. Það hefur ekki verið neitt fararsnið á mér og maður vonar bara að þetta reddist. Fjölskyldupakkinn hérna var stór ástæða fyrir því að við komum aftur,“ sagði Hlynur.

 

Á morgun mætast Sundsvall og botnlið ecoÖrebro. Það skýrist ekki fyrr en á morgun hvort Hlynur og hinir erlendu leikmenn Sundsvall fái að taka þátt í þeim leik. „Þetta kemur bara í ljós á morgun en ég hef lúmskan grun um að við vinnum leikinn.“

 

Hlynur kveðst rólegur þó staðan sé ekki skemmtileg. „Við höfum þær upplýsingar frá klúbbnum að þessi skuld sé greidd og að þetta eigi ekki að vera vandamál til lengri tíma en annars veit ég ekki hvað kemur út úr þessu.“

 

Um þessar mundir er Sundsvall í 3. sæti sænsku deildarinnar og ef af refsiaðgerðum sænska sambandsins verður og þær dragist jafnvel á langinn er ljóst að það mun hafa afdrifaríkar afleiðingar á klúbbinn.