Nú fyrr í dag var frétt þess efnis að Jerome Hill hefði verið sagt upp hjá Tindastól. Kappinn var hinsvegar ekki lengi atvinnulaus því Keflvíkingar hafa ákveðið að skipta út Earl Brown jr. og mun Jerome Hill koma í hans stað.  Mörgum kann að koma þetta spánskt fyrir sjónir sér í lagi þar sem að Keflvíkingar verma toppsæti deildarinnar og Earl Brown er að skila í hús 25 stigum og 12 fráköstum að meðaltali í leik. Alls engar slor tölur þar á ferð. En umræðan hefur verið varnarleikur hans sem hefur farið fyrir brjóstið á mönnum í Keflavík sem og hans síðustu tveir leikir þegar Keflavík tapaði gegn grönnum sínum í Njarðvík og duttu svo út á móti Þór í bikarnum. 

 

Jerome Hill var lengi í gang hjá þeim Tindastólsmönnum en átti svo fína spretti rétt fyrir jólafríið.  Eitthvað hafa þeir Tindastólsmenn hinsvegar ekki verið nægilega sáttir með í leik Hill því hann var látinn pakka niður í dag og heldur suður í Reykjanesbæ þar sem hann mun taka sæti Brown. 

 

Hill kemur því til með að fara úr 8. sæti deildarinnar í það 1. en ef deildarkeppni lyki í dag myndu einmitt þessi lið mætast í fyrstu umferð úrslitakeppninar.