Þrátt fyrir tap í gærkvöldi í 8 liða úrslitum Powerade bikarsins var Haukur Helgi Pálsson ánægður með leik sinna manna. "Mér fannst við spila vel mest megnis. Það komu svona kaflar þar sem þeir tóku spretti þar sem þeir hlaupa og skjóta. Þeim tókst að splundra okkur aðeins þarna í lokin en mér fannst við standa okkur vel mest megnis."

 

Njarðvíkingar hafa verið óheppnir með erlenda leikmenn í vetur. Stefan Bonneau meiddist áður en tímabilið hófst, Marquise Simmons stóð ekki undir væntingum og nú síðast var Michael Craig ekki með hreint sakavottorð. Haukur segir Njarðvíkinga vera með flott lið þó að því vanti erlendan leikmann, en auðvitað muni það hjálpa ef takist að leysa úr þeim málum fyrir mánaðamót. Stemninguna í liðinu segir hann vera samt góða.

 

"Hún er góð, út af því við erum bara Íslendingar. Þegar við erum bara Íslendingarnir þá er þetta bara eins og þegar við vorum í yngri flokkunum. Þá er bara gaman. Við erum bara að reyna að hafa þetta þannig, þrátt fyrir meiðsli og kanavandamál. Við erum bara það flottur hópur að við reynum að halda haus og gera okkar besta."

 

Plönin eru óbreytt hjá Njarðvíkingum þrátt fyrir hrakfarirnar. "Við ætlum alla leið. Það kemur ekkert annað til greina í Njarðvík. Þótt við verðum kanalausir í allan vetur, þá ætlum við alla leið."

 

Mynd: JBÓ