Grindvíkingar fóru nokkuð létt með Stjörnuna í kvöld í Ásgarði í leik sem fór 62-81 fyrir þeim gulu. Í liðinni gestanna leiddi Whitney Frazier í stigaskori með 30 stig. Því miður lá stattið hjá KKÍ niðri á þessum leik og því engar upplýsingar komnar inn nema um stig leikmanna.

 

Leikurinn byrjaði heldur brösulega hjá gestunum og þegar staðan var 11-6 fyrir Stjörnunni tók þjálfari Grindavíkur leikhlé. Eitthvað var sagt í þessu hléi sem hitti í mark en Grindvíkingar mættu alveg brjálaðar af bekknum og voru fljótar að jafna leikinn með rosalegri pressuvörn sem gerði heimakonum lífið leitt. Eftir þetta var Grindavík með góð tök á leiknum og var betra liðið á vellinum.

 

Þriðji leikhlutinn skildi liðin svolítið að hvað varðar baráttuna og trú á leiknum. Björg Einarsdóttir setti niður þrjá frábæra þrista og var allt í einu stigahæst á vellinum með 14 stig. Staðan eftir fyrstu þrjá leikhlutana var 47-62 og 15 stiga munur ekki óyfirstíganlegur á 10 mínútum.

 

Skiptingarnar hjá Stjörnunni verða að teljast heldur óvanalegar. Þegar rétt um 1:30 voru eftir af fyrri hálfleik var Adrienne Godbold kölluð á bekkinn eftir mjög góðan kafla af hennar hálfu. Sú nýja fékk því ansi góða hvíld fyrir þriðja leikhlutann. Það varð þó svo að þegar fjórði leikhlutinn fór af stað voru helstu leikmenn Stjörnunnar sitjandi á bekknum. Það var ekki mikill keppnisbragur yfir heimaliðinu eftir það. Lykilleikmenn sátu fyrstu mínúturnar, Grindvíkingar með sína sterkustu leikmenn inni á vellinum og baráttugleðin í hámarki. Fjórði leikhlutinn endaði nokkuð jafn í stigum, 15-19, en það var ekki að sjá á vellinum. Grindvíkingar börðust af krafti og mikil læti heyrðust af bekknum og frá þjálfurum, greinilegt að hér átti ekkert að gefa eftir. Sama átti ekki við Stjörnuna en trúin á leiknum virtist alveg horfin, sama hvaða leikmenn voru inni á vellinum. Undir lokin voru gestirnir enn að pressa og berjast í vörninni sem olli því að erfiðlega gekk hjá heimakonum.

 

Flottur leikur hjá Grindavík sem situr í 5. sæti deildarinnar, með jafn mörg stig og Valur í 3. sætinu og Keflavík sem situr í 4. sæti. Liðin þrjú eru sem stendur öll með 16 stig en Valur og Grindavík hafa einungis spilað 15 leiki gegn 16 leikjum Keflvíkinga. Baráttan í Dominos Deild kvenna er því í raun tvískipt um þessar mundir. Liðin sem áður voru nefnd keppast um seinni tvö sætin í úrslitakeppninni en Haukar og Snæfell eru með 26 stig í efstu tveimur sætunum. Stjarnan og Hamar sitja á botni deildarinnar en eru ekki í fallhættu þetta árið.

 

Stjarnan-Grindavík 62-81 

Stjarnan: Adrienne Godbold 22, Bryndís Hanna Hreinsdóttir 13, Margrét Kara Sturludóttir 7, Hafrún Hálfdánardóttir 4, Ragna Margrét Brynjarsdóttir 4, Heiðrún Kristmundsdóttir 4, Kristín Fjóla Reynisdóttir 3, Helena Mikaelsdóttir 3, Erla Dís Þórsdóttir 2, Guðrún Edda Sveinbjörnsdóttir 0, Eva María Emilsdóttir 0, Bára Fanney Hálfdanardóttir 0. 

Grindavík: Whitney Michelle Frazier 30, Björg Guðrún Einarsdóttir 14, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 13, Ingibjörg Jakobsdóttir 7, Íris Sverrisdóttir 6, Ingunn Embla Kristínardóttir 6, Petrúnella Skúladóttir 4, Hrund Skuladóttir 3, Viktoría Líf Steinþórsdóttir 0, Helga Einarsdóttir 0, Elsa Katrín Eiríksdóttir 0, Jeanne Lois Figeroa Sicat 0.