Íslenskir leikmenn létu vel að sér kveða í háskólaboltanum í gær og í nótt. Karfan.is fylgdist grannt með gangi mála hjá Brooklyn liðunum LIU og St. Francis þar sem Gunnar og Dagur höfðu betur gegn Martin. Kristófer Acox var einnig á ferðinni með Furman og átti hörku frammistöðu og þá voru þær Lovísa Björt og Hildur Björg einnig að láta til sín taka.

Kristófer daðraði við tvennuna í spennusigri Furman

 

Kristófer Acox var með 11 stig og 8 fráköst í nótt þegar Furman háskólinn hafði nauman 63-62 spennusigur gegn Wofford skólanum. Wofford komust í 61-62 þegar sex sekúndur lifðu leiks og þá tók Stephen Croone til sinna ráða er hann náði sóknarfrákasti og skoraði og tryggði Furman sigurinn.

 

Croone var stigahæstur hjá Furman með 17 stig en eins og áður greinir var Kristófer með 11 stig, 8 fráköst og þá var kappinn einnig með einn stolinn bolta og tvö varin skot. 

 

Með sigrinum tókst Furman að hífa sig upp í 4. sæti SoCon riðilsins með 4 sigra og 3 tapleiki og jöfnuðu þar með Wofford skólann. Á toppnum tróna Chattanooga og ETSU með 6-1 stöðu í riðlinum. 

 


UT Rio Grande Valley lá heima gegn Seattle

 

Hildur Björg Kjartansdóttir og félagar í Rio Grande Valley háskólanum máttu þola nauman ósigur gegn Seattle skólanum í nótt. Lokatölur 71-74 Seattle í vil. 

 

Hildur Björg gerði 9 stig, tók 6 fráköst og stal 3 boltum í leiknum á 33 mínútum. Stigahæst í liði UTRGV var Idil Turk með 15 stig. Ósigurinn í nótt var sá fyrsti hjá Hildi Björgu og félögum í WAC riðlinum en liðið er nú í 2. sæti riðilsins með 5-1 stöðu á eftir NM State skólanum sem trónir á toppi riðilsins og hefur unnið alla sína leiki. 

Fjórir í röð hjá Lovísu og Marist

 

Lovísa Björt Henningsdóttir og Marist háskólinn eru á góðu skriði um þessar mundir því í nótt vann liðið sinn fjórða sigur í röð í háskólaboltanum. Marist lagði þá Niagara skólann 63-50. 

 

Lovísa kom af bekknum og skilaði 10 mínútum í leiknum en þar gerði hún 2 stig og tók eitt frákast. Stigahæst í liði Marist var Tori Jarosz með 25 stig og 14 fráköst. 

 

Með sigrinum í nótt er Maris í 2.-3. sæti MAAC riðilsins með sjö sigra og tvo tapleiki en Siena skólinn trónir á toppi riðilsins með átta sigra og einn tapleik.