Hér kemur síðbúin umfjöllun um viðureign Hattar og Hauka frá því í gærkvöldi:

Hattarmenn fengu Hauka í heimsókn í Íþróttahúsið á Egilsstöðum á fimmtudagskvöldið. Haukar höfðu skömmu áður leyst Bandaríkjamann sinn, Stephen Madison, undan samningi og lék hann því ekki með þeim í leiknum. Flestir bjuggust því við að Hattarmenn gætu látið Hafnfirðingana hafa fyrir því að taka stigin tvö með sér suður á bóginn en svo reyndist aldeilis ekki.

Leikurinn byrjaði nokkuð hægt og var mikið um fljótfærni í sóknarleik beggja liða sem skilaði litlu stigaskori. Bæði lið klikkuðu á opnum skotum og menn virtust ekki vera mættir til leiks. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 12-16, gestunum úr Hafnarfirði í vil.

Þegar 2.leikhluti hófst mætti lið gestanna inn á völlinn en heimamenn töldu sig betur setta meðal áhorfenda. Því fór sem fór og Haukar skoruðu fyrstu 17 stig leikhlutans og leikurinn í bráðri lífshættu. Í þessu áhlaupi gestanna var Kári Jónsson gríðarlega drjúgur og skoraði hann 14 af þessum 17 stigum. Viðar þjálfari Hattar tók leikhlé og reyndi að finna svar við þessu frábæra áhlaupi Hauka en Hattarmenn náðu ekki að koma til baka í 2.leikhluta. Haukar urðu fyrir áfalli um miðjan leikhlutann þegar Finnur Atli Magnússon, miðherji þeirra, meiddist á hné og tók hann ekki frekari þátt í leiknum. Þeir héldu þó sínu striki og var staðan í hálfleik 26-47.

Heimamenn komu mun ákveðnari til leiks í síðari hálfleik á meðan Haukarnir virtust ætla að slaka aðeins á. Hattarmenn söxuðu á forskot gestanna jafnt og þétt með Tobin Carberry í fararbroddi auk þess sem Hreinn Gunnar Birgisson setti mikilvæga þrista inn á milli og Helgi Einarsson virtist heldur ekki líða illa að hirða hvert frákastið á fætur öðru af fyrrum liðsfélögum sínum. Haukur Óskarsson virtist vera sé eini með lífsmarki í sóknarleik Hauka, en hann skoraði 8 af 15 stigum þeirra í leikhlutanum. Staðan eftir 3.leikhluta var 51-62 og heimamenn virtust vera að komast inn í leikinn á ný.

Síðasti leikhlutinn var nokkuð jafn til að byrja með en um miðbik hans fóru Hattarmenn að gera klaufaleg mistök í sóknarleiknum og gengu Haukar á lagið og sigldu nokkuð auðveldum 20 stiga sigri í höfn, 68-88.

Haukar geta því verið sáttir með sitt verk þrátt fyrir slakan 3.leikhluta. Ógöngur Hattarmanna halda þó áfram og eiga þeir erfitt verk fyrir höndum eftir áramót þar sem þeir þurfa að sigra yfir helming leikja sinna ætli þeir að halda sér í deildinni.
Atkvæðamestir hjá Hetti voru Tobin Carberry með 24 stig/10 fráköst/6 stoð, Hreinn Gunnar með 15 stig, Mirko Virijevic með 14 stig/7 fráköst og Helgi Björn með 8 stig/13 fráköst.

Hjá Haukum voru það Kári Jónsson með 29 stig/ 4 stoð, Haukur Óskarsson með 25 stig/4 fráköst og Kristinn Marinósson með 12 stig/7 fráköst.

Tölfræði leiksins

Umfjöllun/ JÁH