Petrúnella Skúladóttir var ekki með í leik Grindavíkur og Snæfells í Mustad höllinni í gærkvöldi en hún er að kljást við afleiðingar heilahristings sem hún hlaut í leik gegn Stjörnunni fyrir tæpum tveimur vikum. Þetta kom fram í Facebook-færslu hennar í dag.

 

Petrúnella sagðist hafa fengið þungt högg á gagnauga í Stjörnuleiknum en ákveðið að halda áfram og spila næsta leik þrátt fyrir höfuðverk. Í þeim leik fékk hún svo olnboga í andlitið og við það versnaði ástandið enn frekar. Fór svo að hún leit við hjá lækni sem húðskammaði hana fyrir að taka sér ekki hvíld eftir fyrra höggið og skipaði henni að hvíla alla þessa viku. 

 

Það hefur reynst erfitt fyrir þennan harðjaxl að sitja heima með dregið fyrir vegna óþæginda frá birtu og gera ekki neitt, en hún verður að hlýða fyrirmælum lækna og fagfólks. 

 

Petrúnella kemur grjóthörð til baka innan tíðar.

 

Óheppnin virðist elta Grindavíkurliðið því Helga Einarsdóttir fór út af eftir höfuðhögg í leik Grindavíkur og Snæfells í gærkvöldi og fékk forgangsakstur á slysavarðstofuna. Hún tilkynnti þó í gærkvöldi að allt sé "eins og það á að vera".