Stundum æxlast hlutirnir skringilega eins og í þessu tilfelli þá gæti einhverjum dottið í hug að vissir erlendir leikmenn á Íslandi væru hreinlega smeykir við Hrafn og Stjörnuna, þannig lagað. Allt er tilviljunum háð sagði einhver…

Þann 29. október síðastliðinn mættust ÍR og Stjarnan í Domino´s-deild karla en þá gat Jonathan Mitchell ekki verið með þar sem hann fékk blóðtappa í annan kálfann. Eins og svo oft vill verða þá mættust liðin einnig í 32 liða úrslitum í Poweradebikarnum og þar var Mitchell enn fjarri góðu gamni. ÍR vann deildarleikinn en bikarmeistarar Stjörnunnar komust í 16 liða úrslit. 

Á undan ÍR seríunni mættust Stjarnan og FSu en þar voru allir klárir í slaginn af erlendu bergi brotnir FSu-megin en þar á undan mættust Tindastóll og Stjarnan þar sem Stólarnir voru ekki komnir með sinn Bandaríkjamann. Vissulega voru Lewis og Flake með í þeim leik en hafa hafa jú íslenskan ríkisborgararétt.

Í kvöld er Stjarnan svo aftur á ferðinni og tekur á móti kanalausum Grindvíkingum þar sem Wise kallinn tekur út leikbann fyrir samskipti sín við dómara eftir leik gegn Snæfell. Stóra spurningin hlýtur þá að vera sú hvort Einar Árni Jóhannsson tefli fram Vance Hall þegar kemur að leik Stjörnunnar og Þórs Þorlákshafnar í næstu viku.

En aftur að alvörunni þar sem hlutirnir eru síður tilviljunum háðir: 

Fyrir leikinn í kvöld eru Grindvíkingar í 3. sæti deildarinnar með 6 stig en Stjarnan í fjögurra stiga hnappnum ásamt sex öðrum liðum. Viðureignir þessara liða hafa verið magnaðar en félögin eiga að baki níu deildarviðureignir í Garðabæ. Grindvíkingar hafa unnið fimm þessara deildarleikja en Stjarnan fjóra. Fimm sinnum hafa liðin mæst í úrslitakeppninni í Ásgarði þar sem Grindvíkingar hafa líka unnið oftar eða þrjá leiki og Stjarnan tvo. Samtals eru þetta því 14 viðureignir hjá liðunum á Íslandsmóti, Grindavík með átta sigra en Stjarnan sex. 

Hér er svo tengill á viðburðinn í Ásgarði í kvöld