Tólf lönd frá þremur heimsálfum hafa lýst yfir áhuga á því að halda lokamótið fyrir Ólympíuleikana í Ríó 2016. Lokamótin fara fram í júní og júlí á næsta ári og þá ræðst endanlega hvernig riðlum karla og kvenna verður háttað í körfuboltakeppni Ólympíuleikanna.

Frakkland og Spánn þykja líklegust til að hreppa keppnina kvennamegin en þar verða 12 lið sem keppa munu um fimm laus sæti í Ríó. Kvennaliðin sem koma til með að keppa um sæti i í Ríó eru Argentína, Hvíta-Rússland, Kamerún, Kína, Kúba, Frakkland, Kórea, Nýja-Sjáland, Nígería, Spánn, Tyrkland og Venesúela. 

Karlamegin eru 15 lið sem hafa tryggt sig inn á þetta lokamót fyrir Ólympíuleikana en það eru Angóla, Kanada, Tékkland, Frakkland, Grikkland, Íran, Ítalía, Japan, Mexíkó, Nýja-Sjáland, Filippseyjar, Púerto Ríkó, Senegal, Serbía og Túnis. 

Þrjú lið til viðbótar komast inn á mótið í karlakeppninni en það fer eftir því hvar keppnin eða í hvaða landi hún muni fara fram. Ef Tékkland, Grikkland, Íran, Ítalía, Mexíkó, Filippseyjar eða Serbía fá að halda keppnina þá fær besta liðið sem ekki tryggði sig inn á þetta úrtökumót sæti í keppninni. Þýskaland, Ísrael og Tyrkland geta aðeins tekið þátt í mótinu ef þau fá rétt til að halda téða undankeppni. 

Umsóknarfrestur til að sækja um að halda mótið rennur út 11. nóvember og ekki ósennilegt að Þýskaland, Ísrael og Tyrkland muni leggja inn umsókn. 

Mynd/ skuli@karfan.is – Þjóðverjar munu ekki taka þátt í forkeppni Ólympíuleikanna nema þeir fái að halda sjálfa keppnina, það er þeirra eina leið til þess að berjast um sæti í Ríó á næsta ári.