Hörkuleikur fór fram í kvöld í Hertz hellinum þar sem ÍR tók á móti Tindastól í 1. umferð Domino's deildar karla. Heimamönnum í ÍR er spáð 11. sæti í deildinni samkvæmt spá fyrirliða og formanna liðanna sem birt var fyrr í þessari viku en Tindastól er spáð næstefsta sætinu. ÍR byrjaði leikinn af krafti og stefndu greinilega á að gefa öllum spádómum langt nef og sýna að þeir ætla ekki að láta sitt eftir liggja í deildinni í vetur. Jafnt var á með liðunum í fyrsta leikhluta en í öðrum leikhluta fór að draga í sundur með þeim og 3ja stiga buzzer frá Darrel Lewis í lok annars leikhluta jók forskot Tindastóls í 9 stiga, hálfleikstölur 42-51. 

Með góðum kafla um miðjan þriðja leikhluta náði ÍR að minnka forskot Tindastóls niður í 5 stig áður en Tindastóll tók leikhlé. Leikur Tindastóls hresstist eftir leikhléið og settu þeir 5 stig á innan við mínútu og juku muninn í 10 stig. ÍR minnkaði forskot Tindastóls niður í 6 stig í upphafi fjórða leikhluta en nær komust þeir ekki, lokatölur í Hellinum 90 – 101 og Tindastóll búið að tryggja sér fyrstu tvö stiginn í deildinni þetta árið. 

Stigahæstir í liði Tindastóls voru Darrel Lewis með 37 stig/11 fráköst, Darrell Flake með 17 stig, Helgi Freyr Margeirsson með 12 stig og Svavar Atli Birgisson með 10 stig. 

Stigahæstir í liði ÍR voru Jonathan Mitchell með 21 stig/10 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson með 17 stig/9 fráköst og Oddur Rúnar Kristjánsson með 17 stig. 

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)

Mynd: Darrel Lewis og félagar hans í Tindastól sóttu 2 stig í Hertz hellinn í fyrstu umferð Domino's deilar karla (Bára Dröfn)