Heimamenn í Þór Þorlákshöfn sýndu enga miskunn í Iceland Glacial höllinni í kvöld þegar þeir unnu Tindastól 92 – 66. Vance Michael Hall leiddi Þórsara með 24 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar og Davíð Arnar Ágústsson bætti við 21 stigi sem komu öll úr þriggja stiga körfum. Hjá gestunum var nýjasti leikmaður liðsins, Jerome Hall, með 13 stig og 10 fráköst.

 

Mætingin í Iceland Glacial höllina var flott í kvöld og stuðningsmenn beggja liða komnir til að hvetja sína menn áfram. 1. leikhlutinn spilaðist jafnt hvað varðar stigaskor og útlit fyrir spennandi leik. Áðurnefndur Davíð Arnar smellti niður þriggja stiga körfu fyrir sína menn undir leikhlutans og kom þeim yfir. Gestirnir voru þó fljótir að jafna leikinn en þegar hálf mínúta var eftir af leikhlutanum svaraði Pétur Rúnar Birgisson með þristi. Hann kom sér svo á vítalínuna í lokasekúndunum eftir óheppilega villu hjá Halldóri Garðari Hermannssyni og setti bæði vítin niður. Það voru því gestirnir sem leiddu 24 – 26 þegar tíminn rann út.

 

Tindastóls menn virtust ætla fara vel af stað í 2. leikhluta en það lifði skammt. Davíð Arnar var fljótur að setja niður þrist númer tvö og Þórsarar tóku við stjórninni á leiknum. Davíð gerði sér lítið fyrir og smellti niður þriðja þristinum í röð og kveikti ekki eingöngu í sínu liði heldur einnig í aðdáendaklúbb sínum í stúkunni. Ingvi Rafn Ingvarsson fékk sína þriðju villu um miðjan leikhlutann og var þá kallaður í smá pásu á bekknum. Hinn brosmildi Darrell Lewis átti síðasta innlegg leikhlutans þegar hann lokaði fyrri hálfleik með þriggja stiga körfu og staðan 46 – 40 fyrir hléið.

 

 

Í 3. leikhluta hélst munurinn í kring um 10 stig allt þar til Ragnar Örn Bragason og Þorsteinn Már Ragnarsson skoruðu sinn hvorn þristinn án þess að gestirnir næðu að svara. Þá hafði Pieti Poikola, þjálfari Tindastóls, séð nóg og tók leikhlé til að tala aðeins við sína menn. Það hafði takmarkað að segja en Þórsarar héldu áfram að setja stór skot. Halldór Garðar setti niður þrjú stig og Davíð nokkur Arnar bætti einnig tveimur þristum við í safnið og var þá 5 af 5 fyrir aftan þriggja stiga línuna. Á lokamínútunni braut Davíð á Viðari Ágústssyni og lagðist það eitthvað illa í Viðar og í framhaldinu þurfti eitthvað að stilla til friðar á milli manna. Staðan í lok leikhlutans var 69 – 54 og gestirnir í raun ekki sérlega líklegir til að vinna upp 15 stiga forystu Þórsara.

 

Snemma í 4. leikhluta þurfti Halldór Garðar að fá sér sæti á bekknum með 5 villur en hann hafði staðið sig vel í að pressa á Tindastóls menn, oft fremstur í þéttri vörn Þórsara. Davíð Arnar var enn á brennandi skotskónum og setti niður þrist númer sex, áfram með 100% nýtingu, og þakið ætlaði bókstaflega að rifna af húsinu. Pieti tók aftur leikhlé enda stemmingin öll hjá Þórsurum og stuðningsmenn þeirra að láta til sín taka. Enn og aftur komu þó heimamenn sterkari út úr hléinu og Ragnar Nathanaelsson gerði sér lítið fyrir og blokkaði broskallinn Lewis. Menn þurftu þó greinilega að passa fagnaðarlætin og fékk stóri maðurinn netta áminningu frá dómurunum fyrir óhóflega fögnuð. Þarna var löngu orðið ljóst að heimamenn ættu þennan leik. Þeir rifu niður frákast úr eigin þriggja stiga tilraun og þannig fékk Vance Hall tækifæri til að setja risa þrist í andlitið á gestunum. Þarna var í raun flest að ganga auðveldlega upp fyrir Þórsara og Tindastóls menn búnir að gefast upp og sást það á þeirra leik. Það var svo sama gamla sagan, Davíð hnoðaði saman einum laufléttum þristi og Pieti svaraði með leikhléi. Leikurinn var að vísu löngu búinn, Tindastóls menn gáfu boltann bæði í hendurnar á Þórsurum og útaf vellinum. Eftirtektarverðasti maður leiksins, Davíð Arnar Ágústsson, fékk sannkallaða heiðursskiptingu þegar ein mínúta var eftir af leiknum. Stuðningsmenn Þórsara stóðu allir á fætur og klöpp þeirra og köll tóku yfir höllina. Það fór að lokum 92 – 66 eftir að Þórsurum tókst að halda Tindastóli undir 15 stigum í þremur leikhlutum af fjórum.

 

Þór Þ.-Tindastóll 92-66 (24-26, 22-14, 23-14, 23-12)

Þór Þ.: Vance Michael Hall 24/7 fráköst/5 stoðsendingar, Davíð Arnar Ágústsson 21, Ragnar Ágúst Nathanaelsson 12/17 fráköst, Ragnar Örn Bragason 12/6 fráköst, Þorsteinn Már Ragnarsson 10/4 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 6, Emil Karel Einarsson 5/7 fráköst/5 stoðsendingar, Baldur Þór Ragnarsson 2, Jón Jökull Þráinsson 0, Hraunar Karl Guðmundsson 0, Magnús Breki Þór?ason 0. 

Tindastóll: Jerome Hill 13/10 fráköst, Darrel Keith Lewis 11/4 fráköst, Darrell Flake 8, Viðar Ágústsson 8, Arnþór Freyr Guðmundsson 8, Pétur Rúnar Birgisson 8/4 fráköst, Pálmi Geir Jónsson 6, Helgi Rafn Viggósson 2, Helgi Freyr Margeirsson 2, Ingvi Rafn Ingvarsson 0, Sigurður Páll Stefánsson 0, Finnbogi Bjarnason 0.