Einhverjar vangaveltur höfðu verið um hvort stjörnuleikmaður Snæfells, Sigurður Þorvaldsson, yrði með eða ekki í leik kvöldsins gegn Grindavík í Mustad Höllinni. Sigurður hafði upphaflega meiðst á kálfa á móti Njarðvík þann 18. síðastliðinn. Spilaði síðan meiddur tæpri viku seinna í leik gegn Hetti á Egilstöðum.

 

Að sögn þjálfara Snæfells, Inga Þórs Steinþórssonar, hefur kappinn ekkert geta æft síðastliðna viku, en hann vonar að hann verði í þokkalegu standi í kvöld því þar skal láta á Sigurð reyna í rimmunni gegn Grindavík. En þess má geta að Grindvíkingar eru aðeins eitt af tveimur þeirra liða sem enn hafa ekki tapað leik það sem af er deildarkeppni (hitt liðið er Keflavík) á meðan að Snæfell hefur aðeins unnið einn leik og tapað tveimur.