Tindastólsmenn hafa leyst Darren Townes undan samningi við félagið en þetta staðfesti þjálfari liðsins, Pieti Poikola, við Karfan.is nú í kvöld. Poikola sagði við Karfan.is að í ljós hefði komið að Tindastóll hefði þörf á öðruvísi leikmanni.

„Eftir þrjár vikur hér við það að kynnast leikmannahópnum kom það á daginn að þarfir okkar eru öðruvísi en þær sem Townes getur sinnt. Ég harma þessi mistök því það er aldrei gott fyrir leikmann að fá reisupassann. Á hinn bóginn er það markmið okkar að vinna deildina og til þess þurfum við að gera þessar breytingar svo það geti orðið að veruleika,“ sagði Poikola en Tindastólsmenn hafa ekki samið við nýjan leikmann að svo stöddu. 

„Við höfum unnið hörðum höndum að því að finna nýjan leikmann og höfum séð nokkra góða kosti á löngum lista leikmanna. Ég vonast til að geta klárað þetta sem allra fyrst. Stefán formaður sér um að ganga frá þessum málum en ég hef tilkynnt honum minn kost í stöðunni,“ sagði Poikola sem gat ekki verið þess fullviss að nýr maður myndi ná inn fyrir fyrsta mótsleik. 

„Það liggur í augum uppi að við viljum fá til okkar leikmann eins fljótt og auðið er, en fyrst þarf að semja við hann,“ sagði Finninn í léttum tón. 

Townes lék fimm leiki með TIndastól í Lengjubikarnum með 13,4 stig, 7,8 fráköst og 2,4 stoðsendingar að meðaltali í leik. 

Mynd/ Davíð Eldur – Townes nr. 8 í leik með Tindastól gegn Keflavík í Lengjubikarnum.