Leikur Tindastóls og Hauka í Dominos deild karla á Sauðárkróki í kvöld verður ekki lengi í minnum hafður.  Í það minnsta er víst að heimamenn í stúkunni vilja gleyma honum sem fyrst og þá sérstaklega byrjun leiksins þar sem Tindastólsliðið var flengt vægðarlaust af Haukum sem mættu vel stemmdir til leiksins á meðan heimamenn mættu hreinlega ekki.  Tindastólsliðinu var fyrirmunað að koma boltanum í körfuna og það var ekki fyrr en Viðar Ágústsson braust í gegn af harðfylgi og skoraði þegar heilar 5 mínútur voru liðnar af leiknum sem Tindastóll komst á blað.  Þá höfðu Haukar þegar skorað 16 stig og þessar fimm mínútur fóru langt með að slökkva hreinlega alveg á heimamönnum.  Fjórðungnum lauk með því að Haukar höfðu skorað 26 stig gegn einungis 7 stigum heimamanna sem gátu ekki hitt belju þó þeir héldu í halann á henni.  Tindastóll hitti úr 3 af 19 skotum utan af velli og úr einu víti og það segir sig sjálft að slík frammistaða er ekki líkleg til árangurs.

 

Stólarnir eru þó þekktir fyrir allt annað en að gefast upp og í öðrum fjórðung fóru þeir aðeins að bíta betur frá sér og þá sérstaklega í vörninni.  Þeir héldu Haukum í 14 stigum í fjórðungnum með mikilli baráttu og skoruðu sjálfir 19 þannig að munurinn minnkaði í 14 stig í hálfleik 26-40.  Gamli Flake kláraði hálfleikinn með mögnuðum þrist og smá von lifði í heimamönnum.

 

Þeir héldu svo áfram baráttunni í þriðja fjórðung og þegar skammt var eftir honum minnkaði Jerome Hill muninn í 2 stig 48-50 og Síkið var lifnað við.  Haukar svöruðu þó fyrir sig og munurinn var 6 stig fyrir lokaátökin 50-56.  Ekki mikið skorað í leiknum eins og sjá má, varnarleikurinn í fyrirrúmi hjá heimamönnum en ennþá áttu þeir erfitt með að finna möskvana.

 

Lokafjórðungurinn einkenndist af mikilli baráttu en Haukar héldu haus og kláruðu verkið þó Stólarnir hafi klórað nokkrum sinnum í þá.  Það reyndist Tindastólsliðinu hreinlega of erfitt að elta Hauka uppi eftir þessa ömurlegu byrjun og leiknum lauk með 8 stiga sigri gestanna 64-72.

 

Eins og áður segir voru heimamenn afspyrnu slakir í byrjun leiks og raunar allan leikinn sóknarlega.  Lewis var kominn með 2 villur innan tveggja mínútna og náði hreinlega aldrei takti við leikinn og það munar um minna fyrir heimamenn.  Jerome Hill fór rólega af stað eins og aðrir en skánaði þegar leið á leikinn og hann og Flake enduðu stigahæstir heimamanna með 12 stig hvor.  Heilt yfir þótti undirrituðum þó Pétur Rúnar Birgisson eiga skástan leik Stólanna.

 

Haukar spiluðu ágætlega sem heild og Haukur Óskarsson fór fyrir þeim í stigaskorun með 22 stig.  Kári Jónsson og Stephen M. Madison áttu líka fínan leik.  Þá er ljóst að Haukum er mikill styrkur í að fá Finn Atla í liðið og öll hans reynsla nýtist liðinu vel.

 

Dómarar leiksins hafa efalaust átt betri leiki en þennan en þó er alveg ljóst að þeir voru ekki ástæðan fyrir ömurlegri hittni heimamanna.

 

Mynd/Texti – Hjalti: Pétur Rúnar sækir að körfu Hauka.