Stjörnumenn tóku í kvöld á móti nýliðum FSu í Ásgarði í háspennuleik. Selfyssingar, sem höfðu tapað fyrstu tveimur leikjum timabilsins, komu mjög vel stemmdir í leikinn og líkt og í fyrsta leik gegn Grindavík voru þeir grátlega nærri sigrinum, en að lokum vann Stjarnan sigur í algerum naglbít, lokastaðan 91-87 fyrir Garðbæinga.

Jafnræði var með liðunum nánast allan leikinn. Garðbæingar voru yfir eftir fyrsta fjórðung, 24-21, en í öðrum leikhluta tóku gestirnir góða rispu með Hlyn Hreinsson í broddi fylkingar, en Hlynur skoraði 11 stig í fyrri hálfleik og stýrði sókn Selfyssinga frábærlega. Stjörnumenn virtust eitthvað slegnir út af laginu en Selfyssingar komust yfir um miðbik annars leikhluta og leiddu í hálfleik, 45-47. Marvin og Al'lonzo Coleman höfðu báðir skorað 12 stig á þessum tímapunkti fyrir Stjörnumenn, en Hlynur var stigahæstur gestanna eins og áður sagði með 11 stig. 

Gestirnir mættu aftur vel stemmdir til leiks í þriðja leikhluta og héldu áfram að gera heimamönnum talsverðar skráveifur. Stjörnumenn létu mótlætið fara nokkuð í taugarnar á sér og til að mynda fékk Marvin tæknivillu um miðbik fjórðungsins, settist á bekkinn og fékk strax aðra tæknivillu, sem skráðist á varamannabekkinn. Áfram höfðu Selfyssingar tveggja stiga forskot eftir leikhlutann og leiddu 62-64 fyrir fjórða.

FSu byrjuðu fjórða leikhluta á því að Chris Anderson og Hlynur Hreinsson smelltu tveimur þristum í andlitið á heimamönnum og FSu skyndilega komnir 8 stigum yfir. Þá tók Ágúst Angantýsson til sinna ráða og kom með tvo risaþrista fyrir Stjörnumenn og minnkaði muninn í tvö stig á ný. Gunnar Ingi svaraði strax í næstu sókn fyrir FSu og næstu mínúturnar voru alveg hnífjafnar.

Stjörnumenn tóku leikhlé þegar 3 mínútur og 45 sekúndur lifðu af leiknum í stöðunni 81-81. Liðin skiptust á að skora næstu mínúturnar en í stöðunni 87-87 voru aðeins um 15 sekúndur eftir af leiknum, og Stjarnan á boltann. Justin Shouse ætlar að geysast upp völlinn en Hlynur Hreinsson braut á honum og fékk þar með sína fimmtu villu. Villan veitti Stjörnumönnum sömuleiðis skotrétt og fór Justin á linuna. Þar gerði hann engin mistök og kom Stjörnunni í 89-87 og 10 sekúndur eftir. FSu tóku leikhlé og komu svo boltanum á Chris Caird sem fór í þriggja stiga skot sem geigaði. Justin náði boltanum og var sendur á vítalínuna þar sem hann innsiglaði afskaplega erfiðan 91-87 sigur Garðbæinga. 

Leikurinn í kvöld var sannarlega spennandi og mátti ekki miklu muna að sigurinn hefði farið yfir Hellisheiðina. Líkt og í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins var það þó reynsluleysið sem varð gestunum að falli, en ljóst er að þeir eiga nóg inni. Stjörnumenn þurftu hins vegar að hafa nóg fyrir hlutunum í kvöld og hafa litið betur út. En eins og "máltækið" segir, sigur er sigur, og Garðbæingar fara með þennan í bankann.

Justin Shouse var stigahæstur Stjörnumanna í kvöld með 27 stig og Chris Anderson skoraði 19 fyrir FSu og tók 8 fráköst að auki. 

Þeir Hlynur Hreinsson og Chris Caird voru að vonum svekktir í lok leiks. "Já þetta er svekkjandi, en það má segja að það sé kannski reynsluleysi að kenna. Við þurfum að fara að læra að vinna og þetta kemur bara með tímanum" sagði Hlynur og Chris bætti við: "Þetta hafa verið svekkjandi töp í byrjun en við höfum í raun verið að leita að leiðum til að tapa þessum leikjum og nú þurfum við að snúa þessu við og finna leiðir til að vinna þá"

Tölfræði leiksins
Myndasafn – Davíð Eldur
Umfjöllun – Elías Karl

Staðan í deildinni

Deildarkeppni
Nr. Lið L U T S Stig/Fen Stg í L/Fen m Heima s/t Úti s/t Stig heima s/f Stig úti s/f Síðustu 5 Síð 10 Form liðs Heima í röð Úti í röð JL
1. Grindavík 3 3 0 6 265/237 88.3/79.0 1/0 2/0 86.0/74.0 89.5/81.5 3/0 3/0 +3 +1 +2 1/0
2. Tindastóll 3 2 1 4 248/250 82.7/83.3 1/0 1/1 79.0/68.0 84.5/91.0 2/1 2/1 -1 +1 -1 0/0
3. Njarðvík 2 2 0 4 160/147 80.0/73.5 1/0 1/0 76.0/74.0 84.0/73.0 2/0 2/0 +2 +1 +1 1/0
4. Keflavík 2 2 0 4 213/205 106.5/102.5 1/0 1/0 109.0/104.0 104.0/101.0 2/0 2/0 +2 +1 +1 2/0
5. Stjarnan 3 2 1 4 239/242 79.7/80.7 2/0 0/1 85.5/81.5 68.0/79.0 2/1 2/1 +1 +2 -1