Nú þegar tímabilið er nýhafið gefur að líta marga nýja leikmenn í búningum liða í Domino´s deildum karla og kvenna. Einhverjir þeirra eru þegar farnir að svitna í leikjum en flestir fá þó aldrei að fara úr upphitunartreyjunum. Um þá leikmenn er sjaldan skrifað. Í dag verður breyting þar á.

 

Hér er um að ræða leikmenn sem engin leið er að vita hvað heita, nema spyrja nákominn ættingja viðkomandi á leikjum en ættingjar slíkra leikmanna eru alla jafna fjölmennir á fyrstu leikjunum. Þegar leikjunum fjölgar fer ættingjum að fækka og undir lokin eru meira að segja pabbi og mamma hætt að nenna að mæta. Er það enda svo að vonarstjarnan þeirra sést aldrei svo mikið sem henda bolta í átt að körfu nema fyrir leik, þegar þau eru ekki mætt, og í hálfleik, þegar þau eru í röðinni í sjoppunni.

 

Það er þó ekki bara í leikjum sem þessir leikmenn „ströggla“. Nei, aldeilis ekki.

 

Þetta eru leikmennirnir sem koma spenntir á æfingu með átrúnaðargoðum sínum til margra ára. Þegar þeir loksins fá að spila með í stað þess að húka út í horni, því Gaui Skúla, Falur Harða o.fl stjörnur eru meiddar, og þeir dirfast að skjóta dauðafríu skoti eftir vel upplagt kerfi öskrar Albert Óskarsson á þá þegar skotið dansar á hringnum; „HEY ÞÚ! – ef þú ætlar að skjóta hér á æfingu þá er eins gott þú hittir…“.

 

Þetta eru leikmennirnir sem reyna að láta finna fyrir sér í vörninni á æfingum til að heilla þjálfarann. Það veldur því að Gunnar Einarsson tekur smá æðiskast, ræðst á viðkomandi og hendir út í  rimla. Þegar Sigurður Ingimundarson þjálfari sér þetta kallar hann á leikmanninn, ekki Gunnar, og skammar hann fyrir að valda vanræðum.

 

Þetta eru leikmennirnir sem leggja blóð, svita og tár í æfingarnar og Sigurður Ingimundarson þjálfari hrósar sérstaklega fyrir að hafa verið bestir á æfingum þessa vikuna, tilkynnir það sérstaklega yfir allan hópinn en velur þá samt ekki í hóp.

 

Þetta eru leikmennirnir sem eru lang duglegastir í fjáröflunum liðsins í Evrópukeppni en þegar farið er í síðustu ferðina er þeim tilkynnt að það fari bara 10 leikmenn til Frakklands því ekki sé til peningur. Í sömu ferð fara hins vegar 8 stjórnarmenn. Þegar þessir leikmenn fá svo algjörlega upp í kok og senda þjálfaranum sms þar sem segir; „Sæll Sigurður, þar sem mín er ekki þörf lengur í fjáröflun liðsins hef ég ákveðið að hætta að æfa með Keflavík…“, fá þeir símtal frá sama þjálfara sem sannfærir þá á fimm mínútum að þeir séu bestu leikmenn Íslands. Þessir leikmenn mæta því á æfingu daginn eftir, fullir eldmóðs, en átta sig svo á því að það er frí í dag því liðið fór til Frakklands um morguninn…

 

Berum virðingu fyrir þessum leikmönnum! En jæja, nóg um mig. Skellum okkur í þetta helsta:

 

–        HAUKAR spáðu sjálfum sér mikilli velgengni fyrir tímabilið karlamegin og ætla sér titla. Það virðist fjarri lagi miðað við byrjun liðsins og spilamennsku. Þó kaninn þeirra sé góður leikmaður þurfa þeir að henda honum og fá sér skrímsli í teiginn, það hentar liðinu betur. Annars verður eina gullið sem mun sjást á Ásvöllum giftingahringurinn hjá Kristni Jónasar og bikararnir sem Helena Sverrisdóttir lyftir…

 

–        ÁSÓKN á leiki í Domino´s deild karla hefur að ég held verið með besta móti miðað við árstíma. Þó ásóknin eigi enn langt í land til að hrökkva fyrir dómarakostnaði leikja eru jákvæð teikn á lofti. Ef fram heldur sem horfir gætu stjórnarmenn mögulega sloppið við að veðsetja eignir sínar vegna dómaraskulda þetta tímabilið…

 

–        SAMA verður ekki sagt um ásóknina kvennamegin. Það er auðvitað skammarlegt hve fáir mæta á leiki í Domino´s deild kvenna. Það eru frábærar stelpur í öllum liðum. Sýnum þeim smá virðingu og mætum á leikina. Hvet þá fáu sem nenntu að lesa þennan pistil að setja sér það markmið að mæta á næsta leik í Domino´s deild kvenna og taka eina stelpu með sér á völlinn. Ég ætla að bjóða Valgerði Páls, framkvæmdastjóra í Svart… nei meina Bjartri Framtíð…

 

–        VONBRIGÐIN í byrjun vetrar eru klárlega hvað Eurobasket gerði lítið fyrir leikmenn íslenska liðsins sem fóru samningslausir inn í mótið. Sýnist Hörður Axel eini sem steig skref fram á við. Langbesti leikmaður Íslands fær þriggja mánaða samning, næstbesti leikmaðurinn fær 6 vikna samning og er nú kominn heim í íslensku deildina eins og hinir samningslausu. Þetta verður seint talið jákvæðar fréttir fyrir íslenska landsliðið enda verður styrkleiki íslensku deildarinnar, þar sem meðalhæð leikmanna er svipuð og fimleikadeildar Gerplu, seint talinn til jafns við aðrar deildir í Evrópu. Þetta bætir þó klárlega Domino´s deildina og gerir skemmtanagildið hennar meira fyrir okkur hin…

 

–        HAUKUR HELGI er að fara jarða þessa deild. Algjör sprengja í íslenskan körfubolta enda með allt of mikið talent fyrir „fimleikadeildina“. Risa sign fyrir Njarðvík og það stærsta síðan undirritaður settist við samningaborðið í Bernhard-Höllinni hjá Ella Hannesar og kreisti út úr honum bensínkort og cash gegn því að draga #MG10 líka yfir lækinn. Njarðvík er að fara úr því að vera lið sem var rétt að fara slefa úrslitakeppni í það að keppa við KR og Tindastól um titilinn…