Íslandsmeistarar KR unnu fyrsta heimaleik sinn í deildinni 90 – 80 gegn Þór Þorlákshöfn. Brynjar Þór Björnsson fór fyrir sínum mönnum með 24 stig, þar af 12 þeirra fengin úr þristum, og 22 framlagsstig. Ragnar Ágúst Nathanaelsson var atkvæðamestur í liði gestanna með 25 stig, 17 fráköst og 4 varin skot sem skiluðu honum 36 af 86 framlagsstigum.

 

Það var vel mætt í báða hluta áhorfendapallanna í DHL höllinni í kvöld. Leikurinn fór mjög jafnt af stað en KR-ingar voru greinilega á skotskónum því fyrstu 12 stig þeirra komu öll úr þriggja stiga skotum. Liðin skiptust á að skora fyrstu mínúturnar en undir miðjan leikhluta náður Þórsarar 10-0 áhlaupi á KR og komu stöðunni í 15 – 25 eftir einungis 6 mínútur af leiktíma. KR tókst að minnka muninn niður í 5 stig og staðan var 23 – 28 þegar leikhlutinn kláraðist.

 

Nú verður ekki hjá því komist að taka það fram, ekki eftir leik FSU og ÍR í gær, en það rúllaði aftur tíkall inn á völlinn! Í þetta sinn náði góður samverji að láta dómara vita án þess að stoppa þyrfti leikinn. Annars var áberandi í 2. leikhluta að dómararnir voru ekki sáttir með skrefafjölda Michael Craion en þeir dæmdu á hann skref tvær sóknir í röð og í heildina þrisvar sinnum í leikhlutanum. Þetta var ekki besti leikhluti Craion, Raggi Nat blokkaði hann í næstu sókn og Þórsarar skelltu svo niður tveimur þristum í röð. KR-ingar sigruðu þó leikhlutann 19 – 16 og komu því stöðunni í 42 – 44 fyrir hálfleik.

 

 

Það voru Þórsarar sem mættu sprækari til leiks úr klefunum og áttu fyrstu 5 stigin í 3. leikhluta. Eftir það spilaðist leikhlutinn virkilega jafnt. Fyrirliði KR-inga, Brynjar Þór, fékk tæknivillu um miðjan leikhlutann og var þá kallaður í smá slökun á bekknum. Þarna fóru menn aðeins á banka á dyr villuvandræða og lykilmenn í báðum liðum komnir með 3 villur. Leikhlutinn fór 21 – 21 og staðan því 63 – 65, gestunum í vil.

 

Lið KR byrjaði 4. leikhlutann af krafti og settu niður 10 stig gegn 0 stigum Þórsara á fyrstu 2 mínútunum. Vance Hall fékk fimmtu villuna sína eftir að dæmd var á hann tæknivilla fyrir leikaraskap. Óneitanlega þungt högg fyrir lið Þórs enda ennþá 6 mínútur eftir af leiknum en þó vissulega enn möguleiki fyrir Þórsara að koma til baka. Nat-vélin henti í tvær troðslur og kveikti það kveikti heldur betur í gestunum. Næsta sókn gekk ekki upp hjá KR-ingum og Þórsarar nýttu tækifærið til að minnka muninn niður 5 stig með mikilvægri körfu frá Ragnari Erni Bragasyni. Síðustu 2 mínúturnar tilheyrðu hins vegar KR-ingum sem kaffærðu gestina endanlega með tveimur þristum í röð frá Darra og Ægi. Klárlega besti leikhluti heimamanna sem náðu að halda Þórsurum í 15 stigum og þar kom frábær varnarframmistaða hjá Þóri Guðmundi Þorbjarnarsyni sterk inn. Leikurinn endaði með 10 stiga sigri heimamanna, 90 – 80 og KR sýndi og sannaði enn á ný að það má aldrei afskrifa þá fyrr en leikurinn er búinn.

 

KR-Þór Þ. 90-80 (23-28, 19-16, 21-21, 27-15)

KR: Brynjar Þór Björnsson 24, Michael Craion 16/7 fráköst, Ægir Þór Steinarsson 16/4 fráköst/7 stoðsendingar, Pavel Ermolinskij 10/6 fráköst/6 stoðsendingar, Darri Hilmarsson 9/5 fráköst, Snorri Hrafnkelsson 7/4 fráköst, Björn Kristjánsson 5, Þórir Guðmundur Þorbjarnarsson 3, Vilhjálmur Kári Jensson 0, Arnór Hermannsson 0, Andrés Ísak Hlynsson 0, Ólafur Þorri Sigurjónsson 0. 

Þór Þ: Ragnar Ágúst Nathanaelsson 25/17 fráköst/4 varin skot, Ragnar Örn Bragason 14/5 fráköst, Vance Michael Hall 13/5 fráköst/5 stoðsendingar, Emil Karel Einarsson 10/5 fráköst/5 stoðsendingar, Þorsteinn Már Ragnarsson 7, Baldur Þór Ragnarsson 4, Halldór Garðar Hermannsson 4, Davíð Arnar Ágústsson 3, Hraunar Karl Guðmundsson 0, Magnús Breki Þór?ason 0, Jón Jökull Þráinsson 0.