Keflavík sigraði Hött frá Egilstöðum með 30 stigum (99-69) fyrr í kvöld á heimavelli sínum, í TM Höllinni í fjórðu umferð Dominos deildar karla. Keflavík því enn taplausir einir og á toppi deildarinnar á meðan að Höttur þurfti að sætta sig við áframhaldandi botnsetu, eftir fjórða tapið í jafnmörgum leikjum.

 

 

Umgangur milli þessara liða síðustu misseri einhver. Fyrir tveimur tímabilum, pökkuðu þeir félagar Andrés Kristleifsson og Eysteinn Bjarni Ævarsson dótinu sínu fyrir austan saman og gengust til liðs við Keflavík. Í “skiptum” fór Ragnar Gerald Albertsson á austur. Í sumar gengu þessi skipti svo til baka að einhverju leyti þegar að Ragnar snýr aftur heim í skiptum fyrir Eystein. Andrési líkaði lífið í Keflavík. Fór því ekki með vini sínum aftur til baka.

 

Andrés hinsvegar fór í byrjunarliðið hjá Keflavík, allavegana í kvöld. 

 

Fyrsti leikhluti þessa leiks var ekki beint mikið fyrir augað. Bæði lið, áttu við einhver sóknarvandamál að stríða. Leikmenn fyrirgerðu opnum sniðskotum, voru að stíga á útaf línuna og kasta boltanum í áhorfendur. Hvort sem það var varnaleikur liðanna eða slæmt dagsform sem réð, var það deginum ljósara að ef leikurinn batnaði ekki. Þá væri hætta að þeir áhorfendur sem Kaffi Duus bauð á leikinn í kvöld myndu einfaldlega standa upp og finna sér eitthvað annað að gera en að vera á körfuboltaleik.

 

Liðsmenn Keflavíkur föttuðu þetta einmitt, seint í þessum fyrsta leikhluta, á meðan að Höttur náði því einfaldlega ekki.

 

Sá fyrsti endaði með fjögurra stiga forystu heimamanna, 18-14 og þegar liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik höfðu heimamenn aukið forystuna svo um munaði, eða í heil 23 stig, 54-31, en í öðrum leikhlutanum náði Keflavík einfaldlega að stöðva næstum hverja einustu aðgerð sem Höttur reyndi að gera sóknarlega öðrum megin á vellinum og setja boltann í netið mjög oft hinumegin. Varnarlega var Keflavík lifandi. Pressan, sem fór svo í svæði hjá þeim á hálfum velli, oftar en ekki á annaðhvort (að er virtist) 3/4 hlutum vallarins eða á honum öllum. Það virkaði.

 

Framlagshæsti leikmaður heimamanna í fyrri hálfleik var Valur Orri Valsson (11 stig, 3 fráköst og 2 stoðsendingar) á meðan að fyrir Hött var það Tobin Carberry sem dró vagninn (15 stig & 6 fráköst)

 

Seinni hálfleikur þessa leiks var ekki leiðinlegur, en hann var heldur ekki spennandi. Menn Hattar áttu engin frekari svör. Unnu reyndar 3. leikhlutann (17-21), en sýndu engin merki þess þeir ætluðu að gera þetta að leik aftur.

 

Í fjórða og síðasta leikhlutanum fór Keflavík aftur á bensínið án, að er virtist, þess að menn Hattar kæmu nokkrum vörnum við. Leikurinn var löngu búinn og það vissu það allir. Leikmennirnir líka, það sást.

 

Leikurinn endaði því með 30 stiga sigri heimamanna, 99-69. Þeir eru því enn ósigraðir og nú, einir (eftir tap Grindavíkur í gær) á toppi deildarinnar eftir þessar fyrstu fjórar umferðirnar.

 

Maður leiksins var leikmaður Keflavíkur, Valur Orri Valsson, en hann skoraði 18 stig, tók 4 fráköst og gaf 4 stoðsendingar á þeim rétt rúmu 26 mínútum sem hann spilaði í kvöld.

 

Punktar:

  • 8 leikmenn Keflavíkur voru komnir á blað h/v stigaskorun eftir fyrsta leikhlutann.
  • 7 leikmenn Keflavíkur skoruðu 8 stig eða fleiri.
  • Nýting Keflavíkur af vellinum var 55% á móti 36% hjá Hetti.
  • Keflavík fór í 28 skipti á gjafalínuna á móti 17 ferðum hjá Hetti.
  • Liðin tóku jafn mörg fráköst (34)
  • Höttur tapaði 22 boltum (13 í fyrri hálfleik) á móti 16 hjá Keflavík (7 í fyrri hálfleik)
  • Keflavík gaf 22 stoðsendingar á móti 15 hjá Hetti.
  • Keflavík var með 7 varin skot í leiknum á móti engu vörðu skoti Hattar.

 

Tölfræði

 

Myndasafn

 

Umfjöllun, myndir, viðtöl, brot / Davíð Eldur