ÍR fór með sigur af hólmi gegn FSU 91 – 81 í Iðu í kvöld. Jonathan Mitchell var með 23 stig og 13 fráköst en fór meiddur af vell þegar 6 mínútur voru eftir af leiknum. Í liði FSU var Ari Gylfason með 23 stig, 6 stoðsendingar og 3 stolna bolta.

 

Það var líf og fjör í Iðu í kvöld og stuðningsmenn beggja liða mættir og tilbúnir að láta heyra í sér. Leikurinn fór mjög jafnt af stað. Það var ljóst frá byrjun að dómararnir ætluðu ekki að spara flauturnar og voru leikmenn úr báðum liðum komnir á bekkinn með 2 villur eftir fyrstu 3 mínúturnar. Daði Berg nældi sér í 2 villur í einni sókn og það nokkuð ódýrt. Eftir leikhlutann var búið að dæma 12 villur og 8 þeirra ÍR megin. Leikhlutinn fór 15 – 18 fyrir ÍR og verður að teljast virkilega jafn.

 

FSU mættu ferskir inn í 2. leikhluta og náðu 7-0 áhlaupi á fyrstu 90 sekúndunum. Mönnum var orðið heldur heitt í hamsi og fyrirliði ÍR, Sveinbjörn Claessen, fékk tæknivillu áminningu frá vinum sínum með flauturnar. Eftir fylgdu villuvandræði hjá Chris Anderson en hann fékk á sig 2 villur á 2 mínútna kafla, bætti svo tæknivillu í safnið stuttu seinna og leiðin lá á bekkinn. Þegar rétt um 10 sekúndur voru eftir stal Oddur Kristjánsson boltanum og kom honum á Mitchell sem setti niður hraðaupphlaupið og fékk að auki villu dæmda á Chris Caird. FSU áttu innkast með 8 sekúndur á leikklukku en rétt misstu af því að næla sér í forskotið fyrir hálfleik og staðan því 36-37 fyrir ÍR í hléi.

 

ÍR byrjaði 3. leikhluta betur en heimamenn og áttu fyrst körfurnar. Vilhjálmur Jónsson fékk tæknivillu eftir að hafa fallið í gólfið ásamt leikmanni FSU og sagt eitthvað óheppilegt við hann beint fyrir framan dómara. Það var búið að dæma tæknivillu í leiknum og hóta þeim líka svo það mætti segja að þetta hafi komið lítið á óvart. Liðsmenn ÍR virtust vera orðnir eitthvað pirraðir um miðjan leikhlutann og ekki hjálpaði að FSU setti tvo risa þrista í röð og minnkuðu forskot ÍR í 5 stig, 48 – 53. FSU áttu einnig næstu 5 stig en Chris Caird jafnaði leikinn með risa þristi um leið og skotklukkan rann út, 53 – 53. Trausti Eiríksson fékk á sig ansi ódýra villu þegar hann braut á Chris Anderson í þriggja stiga tilraun og fór sá síðarnefndi á línuna og setti öll vítin þrjú og kom FSU í 58 – 57. Leikhlutinn lá FSU megin og endaði í stöðunni 65 – 63.

 

Dómararnir höfðu heldur betur fengið að heyra sinn skammt úr öllum áttum en lætin áttu eftir að ná nýjum hæðum í 4. leikhluta. ÍR opnaði leikhlutann með 5 stigum í röð og komust yfir enn á ný. Þegar 6 mínútur lifðu eftir á leikklukkunni lá Jonathan Mitchell allt í einu sárþjáður á gólfinu en undirrituð er hreinlega ekki viss hvað kom fyrir. Hann virtist halda um ökkla, steig ekki í fótinn eftir þetta og var þar með út úr leiknum. ÍR voru þó hvergi bangnir og komu forystu sinni í 8 stig með tveimur þristum í röð, 70 – 78. FSU virtist ætla gera góða tilraun til að vinna þetta upp og áttu næstu 4 stig en Oddur Kristjánsson setti enn einn þristinn beint í andlitið á þeim og kveikti virkilega í sínum mönnum. Þegar tæpar 3 mínútur voru eftir þurfti að stoppa leikinn en þá rúllaði tíkall inn á völlinn á sama stað og menn voru að sækja á. Þetta hlýtur að vera í fyrsta skiptið í íslenskum körfubolta sem peningi rignir, bókstaflega. Eitt vafasamasta atvik leiksins var næst en þá var villa dæmd á Hlyn Hreinsson og hann sendur af velli með 5 villur þrátt fyrir að hafa einungis brotið af sér fjórum sinnum. Þar sem að skýrslan ræður fram yfir stattið og í henni voru villurnar 5 þá þurfti Hlynur að setjast á bekkinn og þar viss blóðtaka fyrir FSU menn. Þegar tæpar 2 mínútur voru eftir var leikurinn enn spennandi, Ari Gylfason fór á línuna fyrir FSU og minnkaði muninn í 5 stig. Annað virkilega vafasamt atvik í dómgæslunni átti sér stað þegar ÍRingum var dæmdur boltinn eftir að þeirra leikmaður hafði greinilega snert hann síðastur og í raun sparkað boltanum út af. Það er þó spurning hvort þetta sást eins vel frá staðsetningu dómara en við á fréttamannaborðunum vorum sennilega með besta sjónarhornið og engin spurning að þarna var vitlaust dæmt. Lið ÍR nýtti að sjálfsögðu tækifærið til auka forystu sína, settu körfu og gerðu í raun út um leikinn. Munurinn á liðunum var 8 stig þegar 30 sekúndur voru eftir á klukkunni en það voru ÍRingar sem áttu síðustu stig leiksins sem komu frá fyrirliðanum af vítalínunni. Lokatölur voru því FSU 81 – 91 ÍR eftir hörku leik þar sem var hart barist allt til enda.

 

FSU-ÍR 81-91 (15-18, 21-19, 29-26, 16-28)

FSu: Cristopher Caird 24/7 fráköst, Christopher Anderson 20/9 fráköst, Maciej Klimaszewski 10/4 fráköst, Hlynur Hreinsson 10/5 sto?sendingar, Ari Gylfason 8/6 sto?sendingar, Birkir Ví?isson 4, Gunnar Ingi Har?arson 3/7 fráköst, Arn?ór Tryggvason 2, Bjarni Geir Gunnarsson 0, Geir Elías Úlfur Helgason 0, Svavar Ingi Stefánsson 0, Haukur Hreinsson 0. 

ÍR: Jonathan Mitchell 23/13 fráköst, Oddur Rúnar Kristjánsson 20, Sveinbjörn Claessen 17/5 sto?sendingar, Vilhjálmur Theodór Jónsson 14, Kristján Pétur Andrésson 7/4 fráköst, Björgvin Haf?ór Ríkhar?sson 5/6 fráköst, Da?i Berg Grétarsson 3, Trausti Eiríksson 2, Sæ?ór Elmar Kristjánsson 0, Daníel Freyr Fri?riksson 0, Hamid Dicko 0.