Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar var ósáttur við leik sinna manna eftir tap í Hertz hellinum gegn ÍR. Stjarnan fékk á sig 30 stig í fjórða leikhluta en Hrafn sagði síðust 10 mínútur leiksins ekki hafa verið neitt einsdæmi – þetta hafi einkennt allan leikinn.

 

"Strax frá upphafi framkvæmdum við ekki hlutina sem við lögðum upp með og leyfðum þeim að hafa allt frumkvæði hvað varðar baráttu, varnarleik og samvinnu." 

 

Stjarnan hefur bikarvörnina á sunnudaginn kemur, einnig gegn ÍR en í Ásgarði að þessu sinni. Hrafn segir liðið þurfa að fara í naflaskoðun, "annars er bikarvörninni lokið á sunnudeginum."

 

En hvað þarf liðið að laga? "Það er ekkert flókið sem þarf að fara yfir. Einungis hvort liðið vill leggja meira á sig en andstæðingurinn og sameinast um að framkvæma leikplanið."

 

Lítið fór fyrir mikilvægu sóknarvopni Stjörnunnar í leiknum en Marvin Valdimarsson skoraði 6 stig í leiknum í kvöld og 4-5 stig í leikjun liðsins þar áður, að undanskildum 20 stiga leik gegn FSu. Hrafn var spurður að því hvað valdi. 

 

"Sjálfsagt má færa rök fyrir því að hann hafi ekki verið upp á sitt besta í kvöld en í tveimur af þremur umferðunum fram að því er ekkert við hann að sakast.  Boltaflæðið hjá okkur hefur einfaldlega ekki verið nógu gott og hann hreinlega verið frystur út úr sóknarleiknum á köflum.  Það er verkefni mitt og strákana að bæta þar úr því sóknarmaður á hans kalíberi á ekki skilið þann skotafjölda sem hann er fá að meðaltali í leikjum hingað til."