Það var vel mætt á Ásvelli þegar Haukar unnu Snæfell 86 – 60 í fyrsta leik tímabilsins. Stephen Madison leiddi heimamenn með 24 stig, 4 fráköst, 2 stoðsendingar og 2 stolna bolta. Hjá Snæfell var Sherrod Nigel Wright með 17 stig, 5 fráköst og 1 stolinn.

 

Leikurinn fór nokkuð jafnt af stað en Haukaliðið virkaði þó aðeins ákveðnari en gestirnir. Staðan var jöfn þegar 5 sekúndur voru eftir en Kari Jónsson setti niður 3 stiga körfu á lokasekúndunni og staðan því 21 – 18 þegar klukkan rann út. Af 21 stigi Hauka komu 16 frá Stephen og Kára.

 

Í 2. leikhluta virtist staðan ætla haldast jöfn áfram en um miðjan leikhlutann náðu Haukarnir 11-0 áhlaup á Snæfell og komu muninum upp í 12 stig. Emil Barja fékk á sig 2 villur í tveimur sóknum í röð, fyrst í frákastabaráttu og síðan fyrir ólöglegt skrín. Stephen og Kári reyndust Snæfellingum virkilega erfiðir og Finnur Magnússon bætti auk þess við mikilvægum stigum undir körfunni. Hjá Snæfell héldu Wright, Siggi Þorvaldsson og Stefán Karel Torfason liðinu á floti en náðu þó aldrei að vinna upp forskot Haukanna. Stigin dreifust mjög svipað í báðum liðum en þau voru einfaldlega fleiri hjá Haukaliðinu. Haukar bættu áfram við og fóru inn í hálfleik með 17 stiga forskot, 47 – 30.

 

3. leikhlutinn fór betur af stað fyrir Haukana sem juku við stigamuninn. Það leit þó út fyrir að Snæfell gæti náð tökum á leiknum á um tíma þegar Haukarnir tóku nokkur óþarflega flókin skot og Sigurður Þorvaldsson setti niður rándýran þrist utan af velli. Heimamenn hleyptu Snæfellingum þó aldrei neitt sérstaklega nálægt sér. Finnur og Kári vörðu skot gestanna 2 sóknir í röð sem kveikti vel í liðinu og Kári átti einstaklega auðvelt með að ná í stig með því að keyra á körfuna. Snæfellingar gáfu Haukunum endurtekið ódýr stig með því að fara ekki í fráköst í vörninni. Þegar 2 mínútur voru eftir af leikhlutanum kom Baldur Þorleifsson á völlinn og ekki að sjá að þarna væri einn 49 ára mættur á gólfið. Leikhlutinn lá Haukamegin og endaði í stöðunni 66 – 41.

 

Leikurinn var hættur að vera spennandi fyrir 4. leikhlutann, munurinn einfaldlega orðinn of mikill. Strax á fyrstu mínútunni setti Stephen niður flotta körfu og fékk óíþróttamannslega villu dæmda á Þorberg Sæþórsson. Haukar áttu Emil Barja alveg inni í stigaskorinu en hann smellti þó góðum þristi snemma í leikhlutanum og munurinn 27 stig. Það lifði þó greinilega einhver barátta Snæfells megin í Þorbergi en hann tók skilti á hliðarlínunni af lífi í baráttunni við að halda boltanum inni á vellinum. Kristinn Marinósson slökkti í Snæfellingum með rosalegri 3 stiga körfu eins og ekkert væri. Undir lokinn voru lykilmenn komnir á bekkinn hjá báðum liðum og leikurinn löngu búinn. Haukar tóku þetta í heildina nokkuð létt þrátt fyrir að vinna 4. leikluta einungis með 1 stigi. Lokaniðurstaðan 26 stiga sigur heimamanna, 86 – 60.

 

Haukar-Snæfell 86-60 (21-18, 26-12, 19-11, 20-19)

Haukar: Stephen Michael Madison 24/4 fráköst, Finnur Atli Magnússon 18, Kári Jónsson 14/11 fráköst/8 stoðsendingar, Haukur Óskarsson 11/4 fráköst, Kristinn Marinósson 7/6 fráköst, Emil Barja 5/4 fráköst/7 stoðsendingar, Guðni Heiðar Valentínusson 4, Kristinn Jónasson 3/5 fráköst, Hjálmar Stefánsson 0, Arnór Bjarki Ívarsson 0, Jón Ólafur Magnússon 0, Alex Óli Ívarsson 0. 

Snæfell: Sherrod Nigel Wright 17/5 fráköst, Sigurður Á. Þorvaldsson 15/8 fráköst, Stefán Karel Torfason 12/9 fráköst, Þorbergur Helgi Sæþórsson 5, Viktor Marínó Alexandersson 5, Jóhann Kristófer Sævarsson 5, Austin Magnus Bracey 1, Hafsteinn Helgi Davíðsson 0, Baldur Þorleifsson 0, Óli Ragnar Alexandersson 0/7 stoðsendingar.