Haukar eru Lengjubikarmeistarar 2015 eftir öruggan 47-70 sigur á Keflavík í úrslitaviðureign liðanna sem fram fór í Iðu á Selfossi. Helena Sverrisdóttir leiddi Hauka með 22 stig, 10 fráköst og 3 stoðsendingar. Bryndís Guðmundsdóttir var með 12 stig í liði Keflavíkur og 2 fráköst.

Haukar fóru taplausar í gegnum keppnina og léku svakalega vörn en í fimm leikjum fengu þær aðeins á sig 48,4 stig að meðaltali í leik. 

Keflvíkingar gerðu fyrstu stig leiksins en Haukar svöruðu með 8-0 rispu og komust í 2-10. Ógnarsterkur og breiður hópur Hafnfirðinga þéttmúraði vörnina sína og leiddu Haukar 14-19 eftir fyrsta leikhluta. 

Enn bar frekar í milli í öðrum leikhluta, Haukar hótuð að stinga af og hnupluðu sex boltum af Keflvíkingum fyrstu tvær og hálfa mínútuna í öðrum leikhluta. Keflavík hékk inni nánast á lyginni einni en þegar leið á annan leikhluta jókst bilið, Haukar leiddu 23-41 í hálfleik og unnu þar með annan leikhluta 9-22. 

Helena Sverrisdóttir var með 12 stig, 5 fráköst og 3 stoðsendingar hjá Haukum og Pálína María Gunnlaugsdóttir  var með 6 stig og 7 fráköst. Hjá Keflavík var Bryndís Guðmundsdóttir með 10 stig og Melissa Zoming 7. 

Keflvíkingar ætluðu ekki að láta að sér hæða og bættu vel í varnarleikinn sinn og héldu Haukum í 10 stigum í leikhlutanum! Haukar leiddu samt 36-51 fyrir fjórða og síðasta leikhluta og þó varnarleikur Keflavíkur hafi batnað til muna voru Keflvíkingar enn að finna lausn á Haukavörninni en bestu sprettir leikhlutans hjá Keflavík komu með nokkra af sterkustu leikmönnum liðsins á tréverkinu svo ef neisti var að kvikna var það fyrir tilstilli þeirra sem af bekknum komu. 

Haukar slökktu vonir Keflavíkur starx í fjórða leikhluta með 1-8 byrjun og eftir það var aldrei spurning um hvoru megin sigurinn lenti. Lokatölur 47-70 Hauka í vil. Sanngjarn og verðskuldaður sigur Hauka þar sem 10 af 12 leikmönnum liðsins komust á blað. Breiddin er svakaleg í herbúðum Hafnfirðinga og vandséð hverjir ætli sér að skáka þeim á tímabilinu. 

Besti maður leiksins: Helena Sverrisdóttir (22 stig/10 fráköst/ 3 stoðsendingar/ 3 stolnir boltar)
Klapp á bakið: Fær Pálína María Gunnlaugsdóttir, frákastahæsti leikmaður vallarins með 12 af glerinu.
Fylgist með: Þórönnu Kiku Hodge-Carr…bráðefnilegur leikmaður hér á ferðinni úr ranni Keflavíkur. 

Tölfræði leiksins