Haukar tóku á móti Snæfelli í Dominosdeild kvenna í kvöld í Schenkerhöllinni. Snæfells stúlkur mættu með tvo sigra í farteskinu og ætluðu sér að að bæta þeim þriðja við.
Haukar byrjuðu betur en mjög fljótlega tók Snæfell við og höfðu þær yfirhöndina næstu 30 mínúturnar. Eftir að hafa spilað frekar litla vörn, hitt illa og tapað boltanum mikið girtu Haukar sig loksins í brók og tókst að kreista fram 66-62 sigur en Snæfell hafði það nefnilega í valdi sínu að knýja fram framlengingu þegar 20 sekúndur voru eftir en aldrei þessu vant brást Berglindi Gunnarsdóttur bogalistin á vítalínunni.

Haukar ruku af stað með 7-0 kafla áður en Haiden Denise Palmer kom Snæfellingum loks á blað. Hólmarar létu þar við ekki staðar numið og áttu þær 8-0 áhlaup sem kom þeim í 7-8. Þá virtust bæði lið vera komin almennilega í gang og skiptust á körfum. Snæfell komst í stöðuna 12-16 þar sem Haiden Denise Palmer og Bryndís Guðmundsdóttir sáu um stigaskorunina, en eftir tvo þrista í röð frá Haukum sem Helena Sverrisdóttir og Sylvía Rún Hálfdanardóttir settu voru Haukar komnar 20-16 yfir. Inga Þór Steinþórssyni leist ekkert á gírinn sem Haukarnir voru komnar í og tók strax leikhlé. Það bar tilætlaðan árangur því Snæfell skoruðu seinustu tvær körfur leikhlutans og var staðan jöfn 20-20 að honum loknum.

Haukar spiluðu mjög slaka vörn í upphafi annars leikhluta, reyndar ekki spilað merkilega vörn í fyrsta heldur. Haukar voru sem dæmi aðeins með eina villu eftir 15 mínútur og var hún meira að segja sóknarvilla. Spilamennska þeirra braggaðist þó aðeins eftir að á leið leikhlutann en Snæfell voru engu að síður með yfirhöndina og leiddu 27-34 þegar fjórar mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.
Haukar minnkuðu muninn í 32-34 fyrir seinni hálfleikinn og átti Jóhanna Björk Sveinsdóttir glæsileg varnartilþrif þar sem hún varði skot Bryndísar Guðmundsóttur í tvígang á seinustu 10 sekúndunum og var hún þá komin með 5 varin skot í fyrri hálfleik, aldeilis ekkert slor þar á ferð.

Helena Sverrisdóttir var atkvæðamest hjá heimastúlkum í hálfleik með 12 stig og 12 fráköst og hjá gestunum var það Haiden Denise Palmer sem var með 13 stig og 7 fráköst.

Snæfellingar byrjuðu seinni hálfleikinn mjög vel þar sem þær skoruðu að vild og voru yfir 34-42 eftir þriggja mínútna leik. Eftir að Haukar komust loksins aftur á blað þá bombaði Bryndís Guðmundsdóttir bara þrist í andlitið á þeim og Haukar gátu ekki gert annað en að taka leikhlé.
Næstu mínúturnar eftir leikhléið voru það stálin stinn en Snæfellingum tókst að auka muninn í 12 stig eftir tvær ferðir á góðgerðarlínuna. Haukum tókst þó að enda skelfilegan leikhluta sinn á jákvæðum nótum þar sem þær áttu 6-0 kafla til að minnka muninn í 42-48 fyrir loka leikhlutann.

Haukar héldu áfram að sækja á og jöfnuðu þær leikinn 48-48 eftir þrist lengst neðan úr bæ frá Pálínu Gunnlaugssdóttur. En Eva var ekki lengi í paradís því Bryndís Guðmundsdóttir svaraði með þrist strax í næstu sókn og Haiden Denise Palmer bætti við tveimur körfum þannig að Snæfell voru aftur komnar í góða forystu, 48-55. Jóhanna Björk Sveinsdóttir splæsti þá í þrist sem að kveikti vel í Haukastúlkum og Helena Sverrisdóttir sá síðan um að koma Haukum yfir 58-57 með góðum þrist. Haukarnir bættu í og voru komnar í 62-57 og farnar að hugsa sér glatt til glóðarinnar, en þá kom Haiden Denise Palmer til sögunnar og jafnaði leikinn í 62-62 þegar aðeins 40 sekúndur eftir. Helena Sverrisdóttir sá hins vegar til þess að Haukum tækist að klára leikinn sér í hag þar sem hún sótti stíft á Snæfell og uppskar tvær ferðir á vítalínuna þar sem hún tryggði stigin í hús.

Stigahæst hjá Haukum var Helena Sverrisdóttir sem var með 32 stig, 19 fráköst, 5 stoðsendingar, 3 stolna bolta og 3 varin skot. Næst henni komst Sylvía Rún Hálfdanardóttir með 9 stig og 6 fráköst.
Hjá Snæfellingum var það Haiden Denise Palmer sem var stigahæst með 26 stig, 12 fráköst, 7 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Á eftir henni kom Bryndís Guðmundsdóttir með 17 stig og 8 fráköst.

Myndasafn eftir Axel Finn

Tölfræði

Helena Sverrisdóttir eftir leik:

Jóhanna Björk Sveinsdóttir eftir leik:

Ingi Þór Steinþórsson eftir leik:

Gunnhildur Gunnarsdóttir eftir leik: