Stöð 2 Sport mun auka heldur betur umfang sitt við Domino´s-deildirnar á komandi leiktíð. Þónokkrir hafa velt því fyrir sér hvað verði um netútsendingar þeirra félaga sem hafa verið að sýna heimaleiki sína sem og útsendingar Sport TV. Karfan.is spurði Hannes S. Jónsson formann KKÍ út í málið.

„Þessi nýji samningur KKÍ og Stöðvar 2 Sport er tímamótasamnigur fyrir íslenskan körfubolti.  Beinar útsendingar úr öllum umferðum Domino´s deildar kvenna og karla ásamt körfuboltakvöldi og svo að sjálfsögðu beinar útsendingar frá úrslitakeppnunum deildanna einnig. Félögin mega sýna leiki beint eins og þau mörg hver hafa gert mjög vel nema ef Stöð2 Sport er að sýna frá viðkomandi leik. Þarna sýnir Stöð2 Sport félögunum okkar mikinn skiling og við erum afar ánægð með sklining Stöðvar 2 Sport á netúsendingum okkar félaga. Ég hvet alla körfubolta-og íþróttaáhugamenn að drífa í því núna að kaupa áskrift af Stöð 2 Sport því framundan er mikil körfuboltaveisla í allan vetur,“ sagði Hannes. 

Hvað þá með aðkomu Sport TV að vetrinum?

„Það á eftir að koma í ljós hvernig og hvort það verður eitthvað á SportTV frá Domonio´s deildunum. KKÍ og samstarfsaðilar þurfa að greiða SportTV fyrir að sína leiki og því er spurning með þessum mikla fjölda útsendinga Stöðvar 2 Sport sem og því sem félögin eru að sýna hvort yfirhöfuð sé hægt að koma við fleiri útsendingum sem og að greiða fyrir þær einnig.“