Elvar Már Friðriksson kemur til með að spila með háskólaliði Barry þennan veturinn eftir að hafa skipt úr LIU háskólanum þar sem hann var ekki að finna sig nægilega vel á ýmsum sviðum.  Elvar hélt til Miami þar sem Barry háskólinn er staðsettur seint í ágúst og hefur verið við nám þar síðan. "Það gengur bara mjög vel, líkar mjög vel hérna, gott að búa hér og er byrjaður að hafa gaman að spila körfubolta á ný. Við byrjum að æfa samkvæmt reglum í dag svo ég er á leiðinni á fyrstu æfinguna eftir klukkutima." sagði Elvar í viðtali við Karfan.is

 

"Liðinu er spáð fyrsta sæti í okkar riðli og "rankað" í topp tíu í Bandaríkjunum í D2, svo gæðin eru mjög góð enda erum við meirihlutinn úr liðinu "transferar" úr 1. deildarskólum. Ég hef aðeins fundað með þjálfaranum og samkvæmt því er mér ætlað stórt hlutverk í vetur, en svo er það undir manni sjálfum komið hvernig það fer allt saman." sagði Elvar ennfremur.

Margir eru kannski ekki alveg með það á hreinu hvernig háskólalífið í USA gengur fyrir sig og við spurðum Elvar aðeins út í hefðbundin dag í sólinni á Florída. "Það er mikil áhersla lögð á námið hérna svo að venjulegur dagur gengur mikið út á heimanám og æfingar."

 

Elvar hélt til LIU háskólans fyrir ári síðan með félaga sínum Martin Hermannssyni sem ákvað að vera áfram hjá LIU. "Ég sakna Martins mjög mikið enda var gaman að vera með besta vini sínum hvern einasta dag svo ég myndi segja að á skalanum 1-10 þá sakna ég hans uppá 10 stig.  En við tölum saman daglega og erum duglegir að skiptast á sögum." sagði Elvar að lokum. 

 

Elvar og félagar í Barry hefja leik þann 13. nóvember gegn liði Florida Memorial.