Bjarni Magnússon, þjálfari ÍR var að vonum ánægður með sína menn eftir sigur á bikarmeisturum Stjörnunnar í kvöld og var sáttur með hvernig menn hafa notað hörmungar síðustu leikja til að búa sig undir átökin. 

 

"Ég er mjög ánægður með hvernig menn komu inn í þetta verkefni. Menn voru að gefa allt í þetta, spila með hjartanum og gefa vel af sér."

 

Hann sagði ÍR-inga samt stutt á veg komna þó þessi sigur sé vissulega mikilvægur og gefi mönnum byr undir báða vængi. "Við erum með 29 stoðsendingar í leiknum. Mjög gott boltaflæði og margir sem ógna í sókninni. Sóknin er fín, það vantar ekki. Það sem vantar hins vegar er varnarleikurinn. Við erum að fá á okkur allt of mikið af stigum í hverjum leik og það þarf að laga."

 

ÍR-ingar hafa verið án Jonathan Mitchell undanfarið en hann fékk blóðtappa í leik FSu og ÍR fyrir um tveimur vikum síðan. Mitchell er á batavegi og vonast Bjarni til þess að hann geti farið að æfa með liðinu um helgina. "Við eigum bikarleik næst sem hann verður ekki með í en ég vonast til þess að hann verði klár í næsta deildarleik gegn Þór í Þorlákshöfn."