Það er ekki að litlu að huga þegar verkefnið er jafn stórt og það sem við ákváðum að taka í fang okkar í þetta skiptið. Að taka saman allra tíma byrjunarliðið fyrir 8 sigursælustu lið efstu deildar á Íslandi frá upphafi. Eftir miklar vangaveltur ákváðum við þó  að taka þessu ekki of hátíðlega. Því þær pælingar geta verið endalausar og varnaglar sem hægt er að setja á geta orðið mýmargir.

 

 

Aðferðin sem við sættumst á að nota var að tala við 10-15 stuðningsmenn hvers liðs og passað var upp á að hafa þá öllum aldri  þannig að hver kynslóð hefði sitt val. Álitsgjafar eru reglulegir gestir á leikjum liðanna og eða "innan hús" menn sem þekkja vel til sem velja sitt byrjunarlið, þjálfara og sjötta leikmann.  Með þessu vali létu stuðningsmennirnir svo fylgja smá texta fyrir hvern leikmann sem við svo klipptum niður og settum með. 

 

Við hefjum leik okkar á liði Keflavíkur. Hvert ætli sé besta lið allra tíma í Keflavík að mati þeirra álitsgjafa sem við leituðum til?

 

Flestir af þeim eru fyrrverandi leikmenn og einn núverandi leikmaður komst á listann. Flestir eiga það þó sameiginlegt að hafa fylgt liðinu frá fyrsta titil eða eins og í nokkrum tilvikum allt frá stofnun deildarinnar. Okkar skoðun (Karfan.is) er engin og við tökum okkur hliðarsæti í þessu titekna verkefni. Við tökum aðeins saman þau atkvæði sem við fengum sem í flestum tilvikum voru frekar afgerandi fyrir þá sem um ræðir hér.

 

Keflavík

 

Stofnað: 1977

Leikir innan liðs: 2909

Landsleikir innan liðs: 506

Bikar og Íslandsmeistaratitlar: 15

 

 

 

 

Leikstjórnandi: Jón Kr. Gíslason

Leikir: 529

Landsleikir: 158

Bikar og Íslandsmeistaratitlar: 5

Tölfræðimoli: Í leik gegn Val þann 22.október, 1991, gaf Jón 17 stoðsendingar.

 

 

Leikmaður sem allir Keflavíkingar muna enn vel eftir. Á víðavangi jafnvel kallaður Herra Keflavík.  Ekki bara fyrir þá ótvíræðu hæfileika og leiðtogahæfni sem hann sýndi af sér á vellinum. Heldur einnig fyrir það að hafa tekið við svipuðu hlutverki um mitt tímabil sem þjálfari liðsins, það tímabil sem sá stóri kom fyrst til Keflavíkur. Sá leikmaður sem fékk flest atkvæði í þessari könnun.

 

Hvað sögðu álitsgjafarnir:

 

“Einn af tveim bestu leikstjórnendum sem Ísland hefur alið”

 

“Einhver hæfileikaríkasti leiðtogi sem körfuknattleikur hefur séð”

 

“Frábær leikstjórnandi og um leið með afburða leikskilning, bjó yfir frábærri boltameðferð og lagði allt í leikinn”

 

“Fyrirliði Íslands á sínum tíma, segir allt sem segja þarf”

 

“Var með ákveðið/sitt svægi á vellinum, sem þekktist ekki á sínum tíma”

 

“Besti leikstjórnandi sem Ísland hefur átt”

 

“Gerði góða menn betri og þá slöku góða”

 

“Lét mann hafa gæsahúð allan leikinn”

 

“Algjör leiðtogi sem allir litu upp til”

 

“Körfubolta IQ á hæsta stigi”

 

“Besti leikstjórnandi sem Keflavík hefur átt”

 

“Mikill sigurvegari”

 

“Stjórnaði leiknum eins og herforingi”

 

 

 

 

 

Skotbakvörður: Guðjón Skúlason

Mynd: mbl.is

Leikir: 750

Landsleikir: 122

Bikar og Íslandsmeistaratitlar: 12

Tölfræðimoli: Guðjón var með 13 stig eða meira að meðaltali heil 17 tímabil í röð, frá árinu 1985 til ársins 2003.

 

Einhver allra hættulegasti skotmaður sem að Ísland hefur nokkurn tíman alið af sér. Var ungur að árum farinn að setja þau í tugum á töfluna og gerði það allt til endans. Vann til að mynda þriggja stiga skotkeppni Stjörnuleiksins einhverjum árum eftir að hann lagði skóna á hilluna. Myndaði einhvern eitraðasta bakvöll með Fal Harðarsyni og Kristni Friðrikssyni á sínum tíma. Var um tíma með nafnið sitt grafið í gólf TM hallarinnar, eða á þeim stað sem hann var hvað hættulegastur, fjærhorninu. Þekktur fyrir að skjóta betur með menn í sér frekar en ekki og helst eftir að hafa hlaupið í gegnum sem flestar hindranir áður. Átti það til á tímum hraðlestarinnar að stöðva sitt eigið hraðaupphlaup við þriggja stiga línuna og skjóta. Því þrjú eru jú betri en tvö.

 

Hvað sögðu álitsgjafarnir:

 

“Skotmaður af guðsnáð, fullkominn”

 

“Skorari sem deildin hefur ekki enn séð aðra útgáfu af”

 

“Einn besti skotmaður sem Ísland hefur alið af sér”

 

“Skytta af guðsnáð”

 

“Gat unnið leiki upp á eigin spýtur”

 

“Tölurnar tala sínu máli”

 

“Í anda Hraðlestarinnar lét hann fallegt skot sitt oft vaða með engum fyrirvara”

 

“Kommon, maðurinn var með nafnið í gólfinu, þarf að segja meira”

 

“Gat skotið andstæðingana í kaf á nokkrum mínútum”

 

“Var heitari en ég veit ekki hvað á öllum réttu augnablikunum”

 

“Betri skyttu finnum við ekki”

 

“Átti margar flottar og eftirminnilegar körfur á sínum feril”

 

 

 

Lítill framherji: Magnús Þór Gunnarsson

Leikir: 500

Landsleikir: 77

Bikar og Íslandsmeistaratitlar: 8

Tölfræðimoli: Magnús er með 88.8% nýtingu yfir ferilinn af vítalínunni.

 

Ef ekki væri fyrir afburðarkosningu Jóns Kr. Gíslasonar í þetta lið þá væri það Magnús Gunnarsson sem fengi að bera titilinn “Herra Keflavík”. Sem leikmaður er og hefur Magnús verið Keflavík algjörlega ómetanlegur. Við getum farið í að útskýra þátttöku hans í þeim fjölmörgu titlum sem hann hefur unnið fyrir Keflavík, hvernig hann ætti að bera hann saman við bestu skotmenn sem til hafa verið eða hversu vanmetinn leikskilningur hans virðist oft á tíðum vera. Hvernig honum hefur (þrátt fyrir að hafa spilað fyrir erkifjendurna í Njarðvík) réttilega verið hampað sem gullna dreng Keflavíkur, eiginlega allar götur síðan Sigurður Ingimundarson ákvað að taka sjénsinn á honum. Látum upptalninguna bara nægja í þetta skiptið. Eini leikmaður liðsins sem er ennþá að spila og segir það þó nokkuð um ást Keflvíkinga á honum að hafa valið hann í þetta lið þrátt fyrir allt.

 

Hvað sögðu álitsgjafarnir:

 

“Deyr fyrir klúbbinn, ef svo má að orði komast, og hefur alltaf gert”

 

“Finnur fáa leikmenn með jafn góðan leikskilning”

 

“Einn mesti clutch leikmaður sem passar sig að fá boltann þegar það þarf að skora og mikið er undir”

 

“Maður sem þú vilt hafa í þínu liði, en ekki í liði andstæðingana”

 

“Ein besta stroka sem sést hefur”

 

“Kann svo sannarlega að setja stemminguna fyrir áhorfandann”

 

“Körfuboltaheili”

 

“Getur skorað hvar sem er á vellinum”

 

“Virðist vera með augu út um allt”

 

“Enginn les leikinn eins vel og hann”

 

“Rosaleg körfuboltagreindarvísitala”

 

 

 

 

Stór framherji: Damon Johnson

 

Leikir: 199

Landsleikir: 5

Bikar og Íslandsmeistaratitlar: 4

Tölfræðimoli: Á þeim 6 árum sem Damon spilaði fyrir Keflavík, mistókst honum í eitt skipti að koma liðinu í lokaúrslit (það var í fyrra)

 

Umdeilanlega er Damon einn besti erlendi leikmaður sem spilað hefur í efstu deild á Íslandi. Miðað við þá hluti sem hann gerði með Keflavík þegar hann kom fyrst til þeirra undir síðustu aldamót, sem og það sem hann gerði síðastliðinn vetur þá kominn á fimmtugsaldurinn. Þar sem í fyrra skiptið fór hann með liðið í úrslit í hvert einasta skipti og vann eina 3 titla með ógnarsterku aldamótaliðinu. Að setja Damon Johnson í hlutverk hins stóra framherja í þessu liði gæti flokkast sem glapræði því sem leikmaður þegar hann var upp á sitt besta spilaði hann stöður 1-3 frábærlega fyrir Keflavík. Var með leikskilning á við þá bestu, vissi hvenær hann þurfti að taka boltann upp völlinn, með skotnýtingu í samanburði við þá bestu í deildinni og var lokahnykkurinn fyrir hraðar sóknir liðs sem að á þessum tímum endurskrifaði “run & gun” bækur efstudeildar á Íslandi.

 

Hvað segja álitsgjafarnir:

 

“Afburðaleikmaður á báðum endum vallarins”

 

“Bjó yfir öllum þeim tólum sem til þurfti til að taka yfir körfuboltaleiki”

 

“Kóngurinn”

 

“Mikill Keflvíkingur”

 

“Frábær karakter, fyrirmynd og keppnismaður”

 

“Skilaði titlum til Keflavíkur”

 

 

 

 

Miðherji: Albert Óskarsson

Mynd:dv

Leikir: 415

Landsleikir: 38

Bikar og Íslandsmeistaratitlar: 8

Tölfræðimoli: Albert var með 54% nýtingu í 2. stiga skotum og 41% í 3. stiga skotum yfir ferilinn sinn.

 

Keflavík er alltaf Keflavík í Keflavík er á leiðinni að verða ódauðlega setning. Hrokafullir leikmenn úr Keflavík eru ófáir en Albert hinsvegar trónir á toppnum þrátt fyrir að aðrir nagi í hæla hans (Gunnari Einarssyni, Arnari Frey, Fannari Ólafs). Hrokafullir í góðri merkingu ef það sé til þá. Vissulega ekki sá leikmaður sem í hefðbundinni uppstillingu þú myndir stilla upp í stöðu miðherja, en það sem Albert hafði fram yfir alla leikmenn hans kynslóðar var hversu mikill íþróttamaður hann var. Hann gat skotið boltanum og þefaði upp fráköst með þeim bestu á sama tíma. Aðalsmerki Alberts var hinsvegar harður varnarleikur hans og oftast var honum falið að dekka erfiðustu sóknarmenn andstæðingsins. Albert spilaði öll sín ár með Keflavík skilaði alltaf sínu 100% og skildi allt eftir á gólfinu.

 

Hvað segja álitsgjafarnir:

 

“Öflugasti varnarmaður sem Keflavík hefur alið”

 

“Ótrúlegur leikmaður á báðum endum vallarins sem skilaði, alltaf, sínu”

 

“Mikið keppniskap, dreifa aðra með sér, mjög snöggur af stórum manni að vera og virkilega góður varnarmaður”

 

“Einn duglegasti leikmaður sem spilað hefur fyrir Keflavík”

 

“Átti skemmtilegt samband við stúkuna”

 

“Holdgervingur Keflvíska hrokans á vellinum”

 

“Einn mesti keppnismaður sem ég hef fylgst með”

 

“Krafturinn og eljan undir körfunni oft með ólíkindum”

 

“Frábær varnarmaður sem sá oftar en ekki um erfiðustu hlutverkin þeim megin á vellinum”

 

“Bjó yfir danshæfileikum sem oftar en ekki setti andstæðinginn út af laginu”

 

“Einn mesti vinnuþjarkur sem Keflavík hefur átt”

 

“Veigraði sér ekki við neitt, óð í alla bolta”

 

“Frábær varnarmaður”

 

“Mikill félagi”

 

 

 

Sjötti Maður: Falur Harðarson

mynd:dagur

Leikir: 516

Landsleikir: 106

Bikar og Íslandsmeistaratitlar: 8

Tölfræðimoli: Flest stig í deildarleik skoraði Falur ekki fyrir Keflavík. Heldur var það þegar hann, í skamman tíma, spilaði fyrir KR, en þann 19. janúar 1995 skoraði hann 45 stig í leik gegn Njarðvík í Ljónagryfjunni.

 

Falur er að öllum líkindum hæfileikaríkasti leikmaður sem að Keflavík hefur alið af sér. Herforingi sem gat á gefnum degi bæði stjórnað leiknum betur en allir aðrir í deildinni og fengið það besta út úr sínu liði þegar að það þurfti, en að sama tíma farið sjálfur af stað og dælt stigum á töfluna þegar ekkert annað virkaði. Af hverju ætli Falur hafi verið kosinn sem sjötti maður þessa liðs? Jón Kr. hlaut yfirburða kosningu í leikstjórnanda stöðuna og Guðjón Skúlason er einn besti skotmaður sem Keflavík hefur alið af sér. Hinsvegar dettur Falur í það að hafa það besta frá þeim báðum, frábær skotmaður/sóknarmaður og einnig gríðarlega öflugur leikstjórnandi. Að því sögðu þá voru þau ár sem Falur skilaði Keflavík algjörlega sér á báti. Efumst stórlega um að einhver leikmaður deildarinnar hafi t.d. skilað öðru eins skrímsli af tímabili og hann gerði eftir 1997 titil Keflavíkur.

 

Hvað sögðu álitsgjafarnir:

 

“Out of this world”

 

“Alltof góður fyrir deildina á sínum tíma”

 

“Las leikinn einstaklega vel”

 

“Falur og Damon mynduðu mögulega besta teymi allra tíma”

 

“Duglegur varnarmaður”

 

“Ef hann skaut ekki í andlitið á andstæðingnum, þá fór hann framhjá honum”

 

“Skemmtilega snöggur leikmaður”

 

“Þvílíkur hraði”

 

“Baneitrað skot”

 

“Alhliða leikmaður”

 

“Liðið tapaði varla leik, ár eftir ár, á meðan hann var innanborðs”

 

“Keppnismaður fram í fingurgóma”

 

“Góður á svo mörgum stöðum á vellinum, gat skotið, stjórnað, sem og, var hann frábær varnarmaður”

 

 

 

 

Þjálfari: Sigurður Ingimundarson

 

Bikar og Íslandsmeistaratitlar: 11

 

Það kom svo sem enginn annar þjálfari til greina fyrir Keflavík. Vissulega unnu Jón Kr., Guðjón Skúlason/Falur Harðarson og Jón Guðmundsson(sem liðsstjóri) einnig titla fyrir Keflavík en svona til þess að setja hlutina samhengi þá hefur Sigurður verið í brúnni í 80% af þeim titlum sem unnist hafa á því gull tímabili (1989-2008) sem Keflavík gekk í gegnum. Oft á tíðum gagnrýndur fyrir hitt og þetta, en sú gagnrýni afskrifast hjá hverjum þeim sem setti eða setur hana fram þegar litið er til þeirra bikara og góðu tíma sem Sigurður hefur stýrt upp í höfn á Sunnubrautinni. Sigursælasti þjálfari efstudeildar fyrr og síðar og þær tölur ljúga ekki.

 

Hvað sögðu álitsgjafarnir:

 

“Sigursælasti þjálfari landsins”

 

“Á þátt í næstum öllum stórum titlum Keflavíkur, sem þjálfari eða sem leikmaður”

 

“Hefur skilað fleiri titlum í hús en nokkur annar þjálfari á landinu”

 

“Fær menn alltaf til þess að skilja allt eftir á gólfinu”

 

“Hann hefur allt”

 

“Nær að gíra menn upp”

 

 

Aðrir sem nefndir voru af álitsgjöfum:

 

Gunnar Einarsson

Hörður Axel Vilhjálmsson

Axel Nikulásson

Kristinn Friðriksson

Fannar Ólafsson

Sigurður Þorsteinsson

Sverrir Þór Sverrisson

Birgir Örn Birgisson

Arnar Freyr Jónsson

Jonathan Bow

Jón Norðdal Hafsteinsson