NBA deildin hefst í kvöld með þremur leikjum í kvöld og því er nauðsynlegt að renna yfir þessar 10 ástæður fyrir því að þú þarft að fylgjast með NBA deildinni í vetur.

 

Nýliðarnir
Það er alltaf gaman að fylgjast með nýliðunum. Þessi árgangur nýliðavalsins var óvenjuvel hlaðinn hæfileikum og gott ef ekki meira hlaðinn en sá frá árinu áður, þegar Jabari Parker og Andrew Wiggins var beðið með mikilli eftirvæntingu. Karl Anthony-Towns hjá Timberwolves og DeAngelo Russell hjá Lakers eru ótrúlega hæfileikaríkir, þó undirritaður telji það líklegast að Jahlil Okafor verði valinn nýliði ársins. Hann er í takmörkuðu liði Sixers og fær því nóg að gera auk þess sem hann er mjög "NBA-ready" eins og það er kallað. Fylgist einnig vel með Kristaps Porzingis hjá Knicks, Stanley Johnson hjá Pistons, Emmanuel Mudiay hjá Nuggets og Mario Hezonja hjá Orlando Magic. Einnig verður forvitnilegt að sjá hvort Willey Cauley-Stein verði miðherjinn sem Sacramento þarf til að DeMarcus Cousins geti farið að einbeita sér að kraftframherjastöðunni og hætta að þurfa að spila miðherja.

 

Hvað gerir Kobe Bryant?
Kobe Bryant var settur í 54. sæti yfir alla leikmenn deildarinnar. Það fer ekki á milli mála að Kobe Bryant hefur náð hæsta tindi ferils síns en fjandinn hafi það að fleiri 50 leikmenn í NBA deildinni séu betri en Mamba þegar hann er heill! Kobe verður "on a mission" að jarða þessar hrakspár og mun spila af sér rassgatið því meiri keppnismaður finnst ekki í deildinni í dag. 

 

Nýir þjálfarar
Tvö lið í NBA deildinni fóru eftir fordæmi Boston Celtics og sóttu sér þjálfara úr háskólaboltanum. Fred Hoiberg var ráðinn til Chicago Bulls og Billy Donovan til Oklahoma City Thunder. Báðir vel reyndir og hafa náð árangri í háskólaboltanum en stökkið yfir í atvinnudeildina er alltaf erfitt. Hoiberg hefur í það minnsta glætt sóknarleik Bulls lífi og hefur meira að segja Doug McBuckets fengið endurnýjun lífdaga eftir að hafa týnst á bekknum og orkufrekum varnarleik Tom Thibodeau. Hann er farinn að raða þristum eins og hann kann best og verður forvitnilegt að sjá hvort náist að halda því við í allan vetur.

 

Verður Paul Pierce það sem þarf til að Clippers vinni titil?
Stjórnendur Los Angeles Clippers vita að klukkan tifar og glugginn til að sækja titil fyrir "hitt liðið" í Englaborginni fer að lokast. Nýr eigandi, Steve Balmer mættur í bæinn með fullt rassgat af seðlum og mun líflegri á leikjum liðsins heldur en rasíska múmían sem átti liðið áður. Þjálfarinn Doc Rivers sótti gamlan félaga sinn, Paul Pierce frá Washington í von um að reynslan hans yrði síðasta pensilstrokan í meistaraverkinu. Það á alveg eftir koma í ljós en hver veit nema Balmer pakki saman og flytji félagið heim til sín í Seattle þegar glugginn lokast á þetta lið. Nostalgían færði okkur aftur Charlotte Hornets í fyrra og það er löngu vitað að það eru ansi margir tilbúnir að fá Seattle Supersonics aftur inn í deildina. Svo verður afar skemmtilegt að sjá Clippers fara til Dallas eftir sápuóperuna í kringum DeAndre Jordan í sumar.

 

Hver verður stigakóngur?
Hinir venjulegu sökudólgar verða á stigavaktinni sem fyrr. Westbrook, Harden, Durant, Carmelo og jafnvel Curry munu bítast um stigakónginn. LeBron James sagði einhvern tímann að hann gæti skorað 40 stig í leik ef hann langaði til þess og hver veit nema hann blandi sér í baráttuna. Hver veit nema nýliðinn Jahlil Okafor verði með í henni. Tækifærin verða til staðar fyrir hann hjá Sixers.

 

Spurs 2.0
San Antonio Spurs eiga marga stuðningsmenn á Íslandi og hafa eflaust margir glaðst yfir viðbótum þeirra af leikmannamarkaði í sumar. LaMarcus Aldridge – sem er nokkurs konar endurunnin útgáfa af Tim Duncan – er kominn til liðs við Texas-liðið. Mid-range spilið hjá Aldridge fellur vel að spilamennsku Spurs og mun hann vafalítið fá nokkra góða punkta frá Timmy áður en tímabilið er búið. Spurs framlengdu til 5 ára við Kawhi Leonard sem er hverrar krónu virði auk þess sem þeir bættu við David West sem ákvað að taka gríðarlega launalækkun og líklega færri mínútur til þess að eygja von á titli hjá San Antonio í vor. Eitt er víst að hættulegri framlína er vandfundin í deildinni.

 

Hver vinnur Shaqtin' A Fool verðlaunin?
Shaqtin' A Fool er orðinn langvinsælasti þátturinn á NBA.com og verður nú á sínu fimmta ári. "Bestu" aulabárðarnir er svo safnað saman í lok tímabils þar sem áhorfendur velja svo út MVP ársins. Góðvinur Shaq, JaVale McGee er tvöfaldur meistari þar, auk þess sem Kendrick Perkins og Otto Porter jr. eiga hvor sinn titilinn. Porter sigraði síðast eftir að hafa sofnað í vörninni á eftirminnilegan hátt á meðan Trevor Ariza stillti sér upp og setti niður þrist.

 

Paul George að spila 3 stöður
Stjórnendur Indiana Pacers hafa gefið það út að Paul George muni að öllum líkindum spila stöðu skotbakvarðar, smærri framherja og einnig kraftframherja. Hvernig þetta á eftir að ganga upp er óvitað en þetta gæti skapað skemmtilegan mismun hjá liðinu gagnvart andstæðingum sínum. George mun líklegast ekki stöðva neina þyngri og sterkari leikmenn en að sama skapi getur enginn þeirra stöðvað hann á hinum enda vallarins. Allt bendir til þess að Pacers fari á kaf í small-ball spilamennsku.

 

Munu Golden State Warriors verja titilinn?
Warriors sigruðu lemstraða Cavaliers síðastliðið sumar og færðu Cleveland-búum enn eina mislukkaða tilraunina til sigurs á NBA meistaratitli. Flestir eru þó á því máli að þessi sería hefði verið allt önnur ef Love og Irving hefðu verið heilir. LeBron er frábær leikmaður og líkast til ofurmenni inni á vellinum en jafnvel hann gat ekki dregið Cavaliers hræið í mark – þrátt fyrir ótrúlega frammistöðu í fyrstu leikjum seríunnar. Verði allir heilir hjá Cleveland er mjög líklegt að þeir fari aftur alla leið í úrslitin og eru veðbankar og stjórnendur deildarinnar á einu máli að liðið sé líklegast til að landa sínum fyrsta NBA titli í vor. Leið Cavs að úrslitunum verður ekki þyrnum stráð en það er biðröð í vestrinu til að mæta þeim þar. Þar verða Spurs, Warriors, Rockets og hver veit nema Donovan takist að kveikja í gömlum glæðum hjá Thunder og fara með þá djúpt inn í úrslitakeppnina.

 

Verður kyndillinn afhentur í lok leiktíðar?
Bent hefur verið á að LeBron James sé, ef ekki á hátindi ferils síns, þá mögulega á niðurleið. Breytingar á einkunnum leikmanna í tölvuleiknum NBA 2K16 gaf þetta til kynna auk þess sem LeBron féll ansi langt niður í styrkleikaröðun fyrir val í NBA fantasy deildum. Turnarnir tveir, LeBron og Kevin Durant, sem skiptst hafa á að halda á NBA ofurstjörnukyndlinum. Munu þeir þurfa að afhenda hann til Stephen Curry, James Harden eða jafnvel Anthony Davis í lok leiktíðar? Þeir gera vissulega tilkall til hans.

 

Það eru breytingar í vændum í NBA deildinni. Launaþakið mun hækka og peningar fara að flæða sem aldrei fyrr inn í deildina. Risasamningar dagsins í dag verða aðeins miðlungs eftir 2-4 ár. Leikurinn er að breytast. Fleiri og fleiri lið eru að færast yfir í money-ball pælingar þar sem hvert skot er valið eftir virði og líkindum. Leikmenn með sérfræðikunnáttu verða verðmætari og hlutverkaskipting skýrari en áður hefur verið. Fylgist með í vetur. Þið verðið ekki fyrir vonbrigðum. Nælið ykkur í fría kynningaráskrift á NBA League Pass og leyfið ykkur að sogast inn.