Ísland sigraði Holland í öðrum leik sínum í Toyota Cup hér í Eistlandi nú rétt í þessu með 67 stigum gegn 65.  Staðan hafði verið 29:21 í hálfleik en Íslendingar leiddu megnið af leiknum. 

 

Ísland hóf leikinn af miklum krafti og Pavel opnaði leikinn með huggulegum þrist úr hægra horninu. Í kjölfarið komu svo fljótlega stig frá Pavel, Herði og Hlyn og staðan 4 mínútna leik 10:2 Íslendinga í vil. Vörn okkar manna gríðarlega þétt og lið Hollendinga reyndu hvað þeir gátu að nýta hæð sína niðri á blokkinni en þar var varnarmúr okkar manna nánast vatnsheldur.  Þjálfarateymið stóð við sitt og voru leikmenn að skipta ört inn og því gátu allir gefið vel í þegar inná var komið. 15:9 var staðan eftir fyrsta fjórðung 

 

Annar fjórðungur spilaðist ekki ólíkt þeim fyrsta. Leikmenn Hollendinga virðast vera hálfpartin ráðlausir og ekki tilbúnir til leiks á meðan okkar menn eru að spila gríðarlega vel. Mikið hafði lagast í vítanýtingu liðsins frá því í gær þar sem þeir höfðu sett niður öll þau 5 víti niður sem þeir fengu fyrstu 20 mínútur leiksins.  Hollendingar náðu hinsvegar fyrir rest að vinna fjórðungin og minnka munin niður í 8 stig og staðan var 29:21 í hálfleik.

 

Hollendingar hófu seinni hálfleik af krafti og voru fljótlega búnir að minnka muninn niður í 6 stig þegar Jakob Sigurðarson skellti niður tveimur þristum á skömmum tíma og munurinn komin í 12 stig.  En þrátt fyrir þetta voru Hollendingar sterkir  og voru að ná að loka á sóknarleik okkar manna og staðan eftir þrjá leikhluta 47:44.  Leikurinn orðin nokkuð jafn og allt stefndi í hörku loka kafla leiksins. 

 

Það varð rauninn og leikurinn nokkuð jafn allt til loka mínútu leiksins. Maður veit nú ekki hvort eigi að kalla áhyggjuefni en á lokasprettinum brenna okkar piltar af þremur vítum til að loka leiknum í raun og veru. Sóknarfrákast hjá Loga var risastórt eftir eina af þessum vítahrinum.  Hollendingar gáfust ekki upp fyrr en flautað var til loka leiks en við fyrirgefum Martin Hermannssyni að klikka á síðasta víti leiksins þegar 0.71 sek voru til loka leiks, eða svipaðar aðstæður og gegn Bretum í London fyrir um ári síðan. 

Sigur þessi er ákveðin skilaboð sem liðið er að senda því þarna er sigur án okkar tveggja sterkustu leikmanna (Hauk Helga og Jóns Arnórs) Varnarsigur af bestu gerð og í hvert skipti sem boltinn kom inní teig liðsins var karfan varin með kjafti og klóm af miklum móð.  Skotin sem liðið var að fá í gær gegn Eistum voru einnig að detta þennan daginn.  Vissulega framför frá því í gær og allt annar bragur á liðinu.  Stigahæstur að þessu sinni var Jakob Sigurðarson með 20 stig og steig kauði upp á hárréttum tíma þegar á þurfti ásamt Loga Gunnarssyni sem setti niður 16 stig.  Með Jón og Helga úr liðinu vantaði ekki bara uppá stigaskorun heldur einnig aðra þætti og þar má nefna að Pavel Ermolinski var grimmur á spjaldinu og hirti 10 fráköst.  Þetta er einmitt sem málið snýst um, að eiga sér bróður að baki.  Að því sögðu þá var liðið allt að spila gríðarlega vel og leikmenn með sín hlutverk á hreinu. 

 

Næsti leikur og sá síðasti er svo á morgun kl 14:30 að íslenskum tíma gegn liði Filipseyja.