U18 ára kvennalið Íslands hefur lokið keppni í B-deild Evrópukeppninnar en Ísland skellti Albaníu 70-50 í lokaumferð mótsins í morgun. Íslenska liðinu gekk brösuglega í riðlakeppninni og hafnaði í milliriðli til að leika um 17. sæti mótsins. Ísland vann alla leikina í millirðilinum og lýkur því keppni í 17. sæti.

Sylvía Rún Hálfdanardóttir fór á kostum í íslenska liðinu í dag með 25 stig og 17 fráköst en þetta heitir víst tröllatvenna. Næst Sylvíu var Elfa Falsdóttir með 12 stig en henni hitnaði höndin með 4/7 í þristum. 

Karfan.is náði eldsnöggt í skottið á Bryndísi Gunnlaugsdóttur aðalfararstjóra íslenska hópsins ytra sem var að vonum kát með frammistöðu liðsins í milliriðlinum. Bryndís vildi líka skila baráttukveðjum frá U18 ára liðinu til íslenska karlalandsliðsins sem leikur í Laugardalshöll í kvöld. 

Mynd/ Íslensku U18 ára stelpurnar voru sælar með sigurinn í morgun.