Íslensku strákarnir léku gríðarlega vel í kvöld gegn Írum en þeir lentu 10-17 undir í upphafi leiks en náðu að snúa leiknum sér í hag og sigruðu 87-75 eftir að hafa leitt 47-38 í hálfleik. Hákon Örn Hjálmarsson var stigahæstur með 27 stig og Nökkvi Már Nökkvason hélt áfram að raða niður þristum og skoraði 17.

Írar hófu leikinn af miklum krafti og réðust mjög sterkt á vörn Íslensku strákanna, þeir náðu að opna vörnina í kringum körfuna og fengu mikið af vítaskotum sem þeir nýttu vel, staðan 10-17 en þá náðu strákarnir að rétta sinn hlut með vel útfærðum sóknarleik þar sem Nökkvi Már setti niður fjórar þriggja stiga körfur á stuttum tíma og staðan 23-25 eftir fyrsta leikhluta. Afmælisbarn dagsins Gísli Þórarinn Hallsson og Sigmar Jóhann Bjarnason röðu á sig villum og komu Þorbjörn Óskar Arnbjörnsson og Egill Agnar Októsson mjög sterkir inn af bekknum. Annar leikhluti var framúrskarandi hjá Íslenska liðinu og vörnin hertist til muna, strákarnir snéru leiknum algjörlega sér í hag og sigruðu hann 24-13, staðan 47-38 í hálfleik. 

Gabríel Sindri fyrirliði opnaði síðari hálfleikinn með tveimur góðum körfum og kom Íslenska liðinu í 17 stiga forystu sem gaf liðinu aukið sjálfstraust. Írarnir með Drummond sem sinn besta mann minnkuðu muninn fyrir loka þriðja leikhluta og staðan 67-54. Í fjórða leikluta skiptu strákarnir í svæðisvörn til að reyna að hægja á árásum Drummond og félaga, það gekk ekki nægjanlega vel og náðu Írarnir að minnka muninn í 9 stig, en þá komu Hákon Örn Hjálmarsson með mikilvæga körfu og í næstu vörn stal Gabríel Sindri boltanum, brotið var á honum og fékk varnarmaður Íra tæknivillu. Íslenska liðið náðu að halda sjó og silgdu sigri í höfn sem gefur þeim úrslitaleik um 17. sætið gegn Rúmeníu.

 

Strákarnir í U16KK leika sinn níunda leik á ellefu dögum hérna í Sofiu þar sem hitastigið er búið að vera í kringum 35°C og er húsið sem strákarnir leika í ekki með loftkælingu. Strákarnir hafa sigrað í þremur síðustu leikjum sínum og mæta fullir sjálfstraust liði Rúmena í úrslitaleik um 17. sætið klukkan 15:15 að íslenskum tíma.

Íslenska liðið var greinilega í mjög sterkum riðli þar sem öll liðin sex úr riðlinum eru að keppa um efstu sætin í 1-8, 9-16 og svo 17-24. Eistar og Pólland leika til úrslita í dag en þessi tvö lið tryggðu sér í gær sæti í A-deild að ári í U16 en Svíþjóð tapaði fyrir Póllandi 70-63 í hörkuleik og Eistar lögðu Slóvaka örugglega. Lið Eistlands og Póllands eru taplaus í mótinu og verður gaman að fylgjast með úrslitaleik þeirra í kvöld.

Íslenska liðið tapaði fjórum af fimm leikjum sínum í riðlinum, en unnu báða leiki sína í milliriðli gegn Hvítrússum og Lúxemborg. Í gær sigruðu þeir svo spræka Íra og geta endað mótið í dag með fjórða sigurleiknum í röð. Til þess þarf liðið í heild að eiga toppleik í öllum stöðum og undir það eru menn að búa sig.

Hákon Örn Hjálmarsson er stigahæsti leikmaðurinn á mótinu með 18.1 stig að meðaltali í leik. Nökkvi Már Nökkvason er 9 með 14.1 stig að meðaltali í leik. Nökkvi er í öðru sæti yfir þriggja stiga nýtingu með 44.6% nýtingu 56 skot tekin og 25 niður. Sá sem er efstur hefur tekið 8 skot og sett niður 5 og því með 62.5% nýtingu. Hákon Örn er tólfti með 37.9% nýtingu í 3ja. Gabríel Sindri Möller er fjórði hæðsti í stoðsendingum með 3.9 í leik.

Fararstjórnin er í höndum Kristjáns E. Möller og er hann að standa vaktina hérna í sinni fyrstu ferð með miklum sóma og mætti halda að hann hafi verið í þessu áður. Mikill fengur fyrir hópinn að hafa fengið þennan sóma kappa með okkur í ferðina.

Sjúkraþjálfarinn Haukur Már Sveinsson hefur haft frekar lítið að gera sem betur fer, annað en að hnoða þjálfarateymið og hefur fallið vel í hópinn.