U16 ára drengjalandsliðs Íslands lék áðan sinn annan leik í B-deild Evrópukeppninnar sem nú stendur yfir í Sofíu í Búlgaríu. Íslenska liðið steinlá gegn frændum sínum úr Svíþjóð 82-42.

Svíar gerðu út um leikinn snemma, leiddu 16-4 eftir fyrsta leikhluta og 46-13 í hálfleik. Eftir þá útreið átti íslenska liðið aldrei afturkvæmt. 

Nökkvi Már Nökkvason var stigahæstur í íslenska liðinu með 13 stig og 2 fráköst og Hákon Örn Hjálmarsson bætti við 8 stigum og 4 fráköstum. 

Ísland leikur þriðja leikinn sinn í riðlinum á morgun og þá gegn Makedóníu.

Mynd úr safni/ Hörður: Frá viðureign Íslands og Svíþjóðar á NM 2015.