Ísland og Belgía eigast við á æfingamótinu í Póllandi í dag en viðureign liðanna hefst kl. 13:30 að íslenskum tíma. Vitaskuld getur allt gerst en miðað við úrslit leikjanna hjá Líbanon þá eru Ísland og Belgía að spila um silfrið í dag. Við getum slegið því nokkuð föstu að heimamenn í Póllandi klári Líbani og vinni þar með mótið.

Viðureign Íslands og Líbanons í gær var fysti landsleikur þjóðanna þar sem Ísland hafði 21 stig sigur og Martin Hermannsson með 24 stig. 

Landsleikurinn gegn Belgíu í dag er hinsvegar fjarri því sá fyrsti því þetta verður tólfti landsleikur þjóðanna. Átta sinnum hafa Belgar borið sigur úr bítum en Ísland hefur unnið þrjár viðureignir. Stærsti ósigurinn okkar gegn Belgíu er 71 stigs tap árið 1989 þegar liðin mættust í undankeppni EM. Sigrarnir okkar komu 1987 (4 stig),  2004 (1 stig) og 2006 (4 stig) en það var einmitt síðasta viðureign þjóðanna svo Ísland og Belgía eru að mætast í fyrsta sinn í níu ár. 

Belgar munu leika í D-riðli á EuroBasket ásamt Eistum, Lettum, Litháum, Úkraínu og Tékkum. Helstu kanónur þar í búri eru Sam Van Rossom leikmaður Valencia, Jonathan Tabu leikmaður Fuenlabrada og Matt Lojeski leikmaður Olympiacos. 

Að loknu mótinu í dag heldur íslenska liðið áleiðis til Berlínar þar sem það mun dvelja við æfingar fram að EuroBasket. 

Mynd/KKÍ – Martin Hermannsson í leiknum gegn Líbanon.